Í dag spáir Veðurstofan sunnan 8-15 m/s og stöku skúrum, en það verður hægari vindur og þurrt austanlands. Síðdegis verða sunnan 13-20 m/s, hvassast norðvestantil, og víða rigning eða súld, en úrkomulítið norðaustantil á landinu. Veður fer hlýnandi og hiti verður 3 til 8 stig seinnipartinn. 

Á morgun verða suðvestan 10-18 m/s, hvassast syðst á landinu og slydduél eða él, en léttskýjað austanlands. Það kólnar heldur og hiti verður um og undir frostmarki annað kvöld.

Í hugleiðingum veðurfræðings kemur fram að það sé útlit fyrir að suðvestanáttin haldist að minnsta kosti fram á á föstudag, en henni fylgir svalt veður og éljagangur um sunnan- og vestanvert landið. Enn fremur segir að dagarnir séu að lengjast og á miðvikudag klukkan 21:58 verði sólin beint yfir miðbaug, en þá eru jafndægur, en það sé samt ekkert vor í kortunum enn.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Suðvestan 10-18 m/s, hvassast við suðurströndina. Skúrir og síðar él, en léttskýjað austanlands. Hiti 1 til 5 stig, en nálægt frostmarki um kvöldið. 

Á miðvikudag: Suðvestan 8-15 m/s og él en þurrt og bjart norðaustantil. Frost 0 til 5 stig, en frostlaust syðst.

Á fimmtudag og föstudag: Suðvestanátt, víða 8-13 m/s en 13-18 m/s á Vestfjörðum með köflum. Élgangur, en léttskýjað norðaustanlands. Frost 1 til 6 stig, en frostlaust með suðurströndinni.

Á laugardag: Hvöss suðvestanátt og él, en þurrt um landið norðaustanvert. Hiti kringum frostmark. 

Á sunnudag: Útlit fyrir hæga breytilega átt og bjart veður, en dálítil él norðanlands. Kólnar talsvert.

Færð á þjóðvegum

Suðvesturland: Hálkublettir eru í Þrengslum en krapi á veginum að Bláfjöllum og í Kjósarskarði. Þokuloft er á Hellisheiði.

Vesturland: All víða er snjóþekja á fjallvegum, s.s. Holtavörðuheiði og Bröttubrekku en greiðfært að mestu á láglendi. Unnið er að mokstri.

Vestfirðir: Þæfingsfærð er á Steingrímsfjarðarheiði og Kleifaheiði en snjóþekja mjög víða í morgunsárið. Krapi er víða í Ísafjarðardjúpi og milli Þorskafjarðar og Kollafjarðar. 

Norðurland: Það er greiðfært að mestu á láglendi. Hálkublettir og skafrenningur eru á Öxnadalsheiði en hálkublettir eða hálka á nokkrum útvegum.

Norðausturland: Hálka eða hálkublettir víðast hvar. 

Austurland: Víða er greiðfært á láglendi en hálka, hálkublettir eða snjóþekja á nokkrum leiðum, einkum á fjallvegum. 

Suðausturland: Hálkublettir víða vestan við Jökulsárlón en snjóþekja er á útvegum. 

Suðurland: Greiðfært víðast hvar en hálkublettir, snjóþekja eða jafnvel krapi á stöku útvegum.