Samband Ungra Sjálfstæðismanna hefur sent frá sér ályktun þar sem skorað er á Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og varaformann Sjálfstæðisflokksins, að fordæma opinberlega aðgerðir kínverskra stjórnvalda í ljósi þeirra mótmæla sem gengið hafa yfir seinustu daga.

Í ályktuninni segir að friðsamir mótmælendur hafi verið barðir niður með kylfum og fangelsaðir fyrir það að mótmæla gegn núllstefnu kínverskra stjórnvalda.

„SUS veltir fyrir sér hversu mörg korn þurfi til að fylla mælinn svo að íslensk stjórnvöld sjái sér fært að fordæma kínversk stjórnvöld. SUS bendir í því samhengi á „endurmenntun“ og þvingaðar ófrjósemisaðgerðir á úígúrskum múslímum, ítrekaðar hótanir kínverskra stjórnvalda gagnvart Taívan, aðgerðir kínverskra stjórnvalda gegn mótmælendum í Hong Kong, ritskoðun kínverskra stjórnvalda á samfélagsmiðlum og fjölmiðlum, andstöðu kínverskra stjórnvalda gagnvart trú-, tjáningar- og samkomufrelsi almennra borgara og svo lengi mætti telja,“ segir í ályktuninni.

Lísbet Sigurðardóttir, formaður SUS, segist hafa fulla trú á því að ráðherra taki þetta mál til greina en bendir á að Ísland sé ekki eina þjóðin sem hikar við að tjá sig um kínversk yfirvöld.

„Það eru náttúrlega hagsmunir í húfi, til dæmis fríverslunarsamningurinn og annað. Ég held að við ættum samt eftir sem áður að standa vörð um fríverslunarsamninginn þar sem hann er forsenda þess að almenningur í Kína geti átt frjáls viðskipti. En að beita þrýstingi og eiga samtal sé klárlega rétta leiðin,“ segir Lísbet.