Daníel Wirkner, gullsmíðanemi, efnir til styrktartónleika ásamt Laufi, félagi flogaveikra á Íslandi, til að safna fyrir súrefnismettunarmælum í allar farþegavélar flugflotans á Íslandi. Daníel fékk flogakast um borð í vél Icelandair á leið frá Alicante til Keflavíkur aðfaranótt 4. september.

Litlu mátti muna en til allrar lukku voru Anna Linda Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur og Hlynur Löve læknir um borð í flugvélinni og komu honum til bjargar. Með skjótum viðbrögðum þeirra og áhafnar vélarinnar tókst að bjarga lífi Daníels.

Þá þykir athugunarvert að súrefni sé geymt í flugvélum en ekki súrefnismettunarmælar, en þeir eru nauðsynlegir til að vita hversu mikið súrefni eigi að gefa sjúklingum að hverju sinni. Hættulegt sé að gefa of mikið eða of lítið.

Súrefnismettunarmælar eru ekki um borð í flugvélum almennt en að sögn Hlyns, hefði vinna hans og Önnu verið mun auðveldari, hefði slíkur mælir verið við hendi.

„Ég er flogaveikur og hef oft fengið flogakast áður, en aldrei í flugvél og aldrei svona alvarlegt kast,“ segir Daníel í samtali við Fréttablaðið. Hann fékk flogakast þegar flugvél Icelandair var yfir Írlandi og var þá vélinni snúið við og lent í Dyflinni.

Daníel var í flogakasti í 20 til 40 mínútur. Hlynur Löve læknir hafi ekki vitað hversu mikið súrefni hann ætti að gefa Daníel, enda var ekki hægt að mæla súrefnismettunina í blóði hans um borð í vélinni.

„Ég var búinn að tæma allar súrefnisbirgðirnar um borð í vélinni og ég var orðinn blár í framan.“

„Ég var búinn að tæma allar súrefnisbirgðirnar um borð í vélinni og ég var orðinn blár í framan. Þegar ég kom inn á gjörgæsluna í Dublin, þá var súrefnismettunin mín 45 prósent,“ segir Daníel en eðlileg gildi eru 95 - 98 prósent.

„Ég var mjög heppin að læknirinn Hlynur var um borð ásamt Önnu Lindu hjúkrunarfræðingi. Ég hefði ekki lifað af án þeirra.“

Daníel segist ekki hafa munað mikið af atvikinu en hann vaknaði tveimur dögum síðar á sjúkrahúsi í Dyglinni. Hann var í 9 daga á spítalanum. Nú vilji hann launa lífgjöfina og láta gott af sér leiða með því að safna fyrir súrefnismettunarmælum í allar flugvélar.

„Mál þetta varðar alla þjóðina, því þetta litla tæki sem um ræðir, getur skipt sköpum í neyðartilvikum,“ segir Daníel.

Styrktartónleikarnir fara fram í Gamla Bíó á morgun miðvikudaginn 30. október og er miðaverð 4.500 krónur. Hægt er að panta miða á netfanginu redstone@internet.is.