Sundlaugum Reykjavíkurborgar verður lokað í dag og á morgun. Ástæðan er að Veitur munu skerða framlag á heitu vatni til stórnotenda, þar á meðal sundlauga á höfuðborgarsvæðinu vegna álags á hitaveitukerfi í kuldatíðinni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg, en lokunin mun einnig ná yfir baðaðstöðuna við Ylströndina í Nauthólsvík.

Að sögn Veitna verður staðan metin aftur í fyrramálið og þá tekin ákvörðun um framhaldið. Búist er við að dragi úr frosti og þar með álagi á hitaveitukerfið á föstudag.

Uppfært

Reykjavíkurborg hefur sent frá sér aðra tilkynningu vegna málsins þar sem tekið er fram að lokunin eigi við um daginn í dag og morgundaginn. í upprunalegri tilkynningu sagði að opnunartími sundlauganna yrði óbreyttur í dag, miðvikudag.

Í tilkynningu frá Veitum kemur fram að notkun á heitu vatni hefur verið í hámarki í kuldatíðinni sem staðið hefur yfir frá því í byrjun desember. Því hafi verið ákveðið að bregða til þess ráðs að skerða vatn til allra sundlauga og baðlóna á morgun, þar sem forgangsröðunin sé alltaf húshitun.

Þá kemur fram að þar sem spáð sé hlýrra veðri næstkomandi föstudag þurfi Veitur vonandi ekki að skerða vatnið lengur en fram yfir hádegi þann daginn.

Auk þess segir að vegna mikillar notkunar á heita vatninu þessa dagana gætu íbúar á einhverjum svæðum höfuðborgarsvæðisins fundið fyrir lækkun á þrýstingi. Veitur vilja hvetja fólk til að fara vel með varmann. Athuga allar þéttingar á gluggum og hurðum og tryggja að hitakerfið sé að virka rétt og láti ekki renna í heita pottinn á allra köldustu dögunum.