Grétar Lind, starfsmaður Árbæjarlaugar, segir það mun flóknara verkefni að hita sundlaugar á ný eftir lokun en margir gera sér grein fyrir. Sundlaugar eru háðar mismunandi tækjum sem staðsett eru í kjallara lauganna og þarf að fara hægt og rólega yfir upphitunarferlið.

„Þú ýtir ekki bara á einn takka og þá er allt komið,“ segir Grétar og bætir við að það taki tíma fyrir vatnið í sundlaugunum að hitna og þá sérstaklega á veturna.

Hann segir sundlaugar mjög viðkvæmar fyrir frosti og er það líka ástæða þess að laugarnar eru ávallt tæmdar að sumri til þegar þær eru hreinsaðar. Myndi starfsfólk tæma sundlaugina að vetri til myndi frostið einfaldlega skemma hana.

„Við erum rík að eiga þetta heita vatn, en við tökum því samt stundum eins og sjálfsögðum hlut og svo þegar við neyðumst til að skrúfa fyrir þá eru margir mjög óánægðir.“

Grétar segir að þrátt fyrir eitt versta kuldakast sem sést hefur í 50 ár sé Árbæjarlaug komin aftur í gott ástand. „Það getur tekið mislangan tíma að hita sundlaugina eftir því hvað hún er stór. Hitastigið er yfirleitt hærra hjá okkur, eða í kringum 29 gráður. Fólki finnst það bara mjög þægilegt.“ n