Starfsmenn Laugardalslaugar hafa útbúið sérstakt bæli fyrir læðuna Loppu þar sem hún unir hag sínum vel undir afgreiðsluborðinu.

Þegar Fréttablaðið bar að garði í gær var veðrið fallegt og Loppa úti að leika sér. Starfsmenn Laugardalslaugarinnar bjuggust þó við að hún kæmi aftur fyrr en síðar. Viti menn. Auðvitað mætti Loppa alsæl og gekk inn í anddyrið eins og drottning á heimavelli. Eins og hún vissi að hún væri aðalstjarnan í þessari sögu.

Loppa þekkir hvern krók og kima anddyris Laugardalslaugar eins og loppuna á sér. „Hún er búin að vera hér í rúmt ár og lætur rennerí í eða úr lauginni ekki stoppa sig. Hún labbar bara hingað inn,“ segja starfsmenn laugarinnar sem voru á vakt í gær.

Starfsmennirnir eru sammála um að Loppa liti anddyrið fallegum litum og það sé ekkert vesen á henni. Hún veiti bæði þeim og gestum félagsskap.

Stundum fer Loppa meira að segja á bak við annað afgreiðsluborð til að horfa á stóra fiskabúrið í anddyrinu. Lætur sig dreyma um framandi máltíð en fiskarnir í Laugardalnum eru af öllum gerðum og litum.

Loppa þarf þó ekki að kvarta undan matarskorti. Starfsmennirnir segja að fastagestir séu duglegir að koma með mat og drykk og jafnvel sérstakt kattanammi fyrir hana.

„Einn fastagestur, eldri kona, kom með frosinn fisk um daginn og baðst afsökunar á að hann væri ekki ferskur og fínn. Við fórum með hana að örbylgjuofninum og afþíddum fiskinn með henni svo Loppa gæti gætt sér á gulli hafsins,“ segja drengirnir í afgreiðslunni.

Loppa á sína eigendur og þeir vita af sundáhuganum og hvar hún er þegar hún lætur sig hverfa. Hið eina sem þau biðja starfsmenn og aðra gesti um er að gefa henni ekki mjólk. Þá fær hún nefnilega í magann.

„Það gerist alveg að hún sofi hér. Neiti hreinlega að fara. Hún fer stundum í gömlu afgreiðsluna og er þar heilu klukkustundirnar,“ bæta starfsmennirnir við. Þeir segja að hún sé ekkert fyrir að fara ofan í heitu pottana eða sundlaugina sjálfa heldur láti sér nægja að kíkja stundum út og skoða þá sem séu ofan í.