Sundhöllin á Selfossi er löngu sprungin vegna mikillar íbúafjölgunar í sveitarfélaginu Árborg á undanförnum árum og áratugum. Sunddeild Ungmennafélags Selfoss sendi bæjarráði nýlega áskorun um að flýta þyrfti uppbyggingu nýrrar sundlaugar.

„Tafir á uppbyggingu geta valdið vandræðum með að koma börnum í skólasund,“ segir Guðmundur Pálsson, formaður sunddeildarinnar, sem telur nú um 60 iðkendur.

Í Sundhöllinni er 25 metra útilaug, 18 metra innilaug og barnalaug. Árið 2015 var byggt við Sundhöllina og þá bætt við inni-barnalaug.

En það þarf að gera meira til að mæta fólksfjölguninni. Frá aldamótum hefur íbúafjöldi Árborgar nærri tvöfaldast, það er farið úr 5.691 í 10.834. Börnum á grunnskólaaldri hefur fjölgað úr 941 í 1.581, eða um 640.

Guðmundur segir að til séu teikningar af nýrri laug, sem yrði byggð við hlið Sunnulækjarskóla. Sveitarfélagið hefur stofnað nefnd um uppbyggingu sundlaugarmannvirkja en hún hefur farið hægt af stað. Engar ákvarðanir eða tímasetningar eru til um nýja sundlaug.

„Það eru allar brautir gjörnýttar. Almennir sundlaugargestir hafa verið mjög kurteisir og þolinmóðir,“ segir Guðmundur um stöðuna í Sundhöllinni en sveitarfélagið á einnig 18 metra útilaug á Stokkseyri.

„Krakkar í Flóahreppi þurfa að fara í sund í Rangárvallasýslu. Þau komast ekki að hjá Selfossi,“ segir Guðmundur en Flóahreppur er austan við Árborg.