Reynir Ragnars­son, stjórn­mála­fræðingur, stofnaði í mars á þessu ári reikninginn Arki­tektúr á Ís­landi. Síðan hefur vakið tals­verða at­hygli og er núna með yfir tvö þúsund fylgj­endur. Reynir deilir myndum af byggingum og hverfum sem hann er ekki hrifinn af og myndum af hverfum eða byggingum sem hann telur betri lausn.

„Ég er ekki arki­tekt og hef aldrei þóst vera það en það var ein­hver mis­skilningur hjá arki­tektum þegar ég stofnaði reikninginn að ég væri að þykjast vera arki­tekt og það ætti að hundsa reikninginn. En það er langt síðan og reikningurinn hefur haldið á­fram að vaxa,“ segir Reynir í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hann segir að hann hafi lengi haft á­huga á alls­kyns hönnum og þá sér­stak­lega arki­tektúr.

„Hann er allt í kringum okkur. Byggingin sem við búum í, skólinn, vinnan og allt. Mér finnst að allir ættu að hafa á­huga á þessu og eitt­hvað að segja. Þetta er eitt­hvað sem snertir okkur öll, ekki bara þá sem að hanna byggingarnar,“ segir Reynir.

Hann segir að með því að stofna reikninginn hafi hann séð fyrir sér að blanda saman á­huga sínum á grafískri hönnun og reyna að hefja um­ræðu á Ís­landi um hvernig borg við viljum búa í.

„Ef eitt­hvað land þarf á svona reikningi að halda er það Ís­land. Margir hafa sagt við mig að ef ég myndi segja þeim að sama manneskjan hafi hannað allar byggingarnar á Ís­landi síðustu 30 árin þá myndi ég trúa því. Því þetta hefur verið eins­leitt og hrein­lega ljótt. Oft er þetta lát­laust og ó­spennandi og í öðrum til­fellum er það bara sjón­mengun verð ég að segja,“ segir Reynir.

Dæmi um myndir sem Reynir birtir á Instagram.
Mynd/Samsett

Margir mismunandi gráir kassar

Hann segir að með orðum sínum, bæði í við­talinu og á Insta­gram, sé hann ekki að gagn­rýna ein­hvern einn arki­tekt eða stofu heldur sé hann að tala um byggingarnar.

„Margir arki­tektar hafa sent mér skila­boð eða skrifað at­huga­semdir um að það megi oft ræða það hvort það sé arki­tektúr yfir höfuð og spyrja hvort ég hafi kynnt mér hvort að það hafi verið verk­taki eða arki­tekt sem hannaði. Ég svara því alltaf þannig að ég hafi aldrei minnst á arki­tektinn eða hver beri á­byrgð á því. Ég er bara að tala um að þetta hafi verið það sem var byggt, það lítur svona út og mér finnst það vera vanda­málið. Það skiptir ekki máli hver teiknaði það,“ segir Reynir.

Hann segir að það sem hann gagn­rýni hvað helst séu fjöl­býlis­hús. Það sé verið að byggja mikið víða, til dæmis í Grafar­holti og Grafar­vogi, og það sé „mis­munandi gráir kassar“.

„Þetta er ein­kennandi fyrir ís­lenskan arki­tektúr í dag þegar kemur að því að búa til ný hverfi,“ segir Reynir.

Hann segir að það sé alls ekki allt slæmt en kallar eftir meiri fjöl­breytni í ný­byggingum og í borgar­þróun. Það þurfi ekki allt að vera í ný­klassískum stíl.

Spurður hvort hann eigi sér einhverjar uppáhalds byggingar á Íslandi segir Reynir að Hótel Siglufjörður, Konsúlat Hótel og byggingin þar við hliðina á séu í miklu uppáhaldi.
Mynd/Aðsend

Fagna opinni umræðu en finnst hann neikvæður

Sig­ríður Maack, formaður í Arki­tekta­fé­lagi Ís­lands, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að fé­lagið hafi ekki sterka skoðun á reikningnum, þau fagni opinni um­ræðu um arki­tektúr á Ís­landi, en að henni finnist Reynir heldur nei­kvæður í gagn­rýni sinni.

„Við fögnum allri um­ræðu. Per­sónu­lega finnst mér frá­bært að ungur maður hafi skoðun á þessu og segi eitt­hvað. Fólk hefur sínar meiningar um þetta en mig hefur langað að setjast niður með honum að ræða þetta. Það er frá­bært að ungt fólk sé vakandi fyrir þessu,“ segir Sig­ríður..

Hún segir að það sé stefna hjá nú­verandi stjórn að auka um­ræðu um arki­tektúr á Ís­landi.

„Ég lít á það þannig að við eigum öll að láta arki­tektúr okkur varða. Það er ekkert rétt eða rangt. Vissu­lega finnst mér hann nei­kvæður því það er svo margt flott og skemmti­legt. En við hjá fé­laginu fögnum öllum skoðunum en höfum ekki haft tæki­færi til að taka þátt í um­ræðunni,“ segir Sig­ríður.

Stétt sem ekki er vön að fá gagnrýni

Að­spurður hvað honum finnist um þessi um­mæli Sig­ríðar segir Reynir að hann telji það mis­skilning að hann sé nei­kvæður.

„Þetta er stétt sem er ekki vön að fá gagn­rýni,“ segir Reynir sem telur að arki­tektar séu of gjarnir á að ræða arki­tektúr í lokuðum hópum fræði­fólks á stofum eða í lista­há­skólum.

„En ekki eins mikið á milli al­mennings og arki­tekta. Ég held að skila­boðin sem ég hef verið að fá frá mörgum sýni að arki­tektúr sé arki­tektum ein­hvern veginn einka­mál. Þau skynja það sem ég er að gera sem ein­hvers konar árás á það sem þau hafa verið að gera, en ég er bara að gagn­rýna það sem við sjáum, það sem er er verið að byggja. Ef ein­hver teiknaði það þá verða þau að taka því, en þetta er ekki árás á þau per­sónu­lega,“ segir Reynir.

Hann segir að það verði að taka það inn í dæmið að arki­tektúr er ekki eins og önnur list. Hún sé fyrir framan alla og mun standa lengi.

„Mér finnst sjálf­sagt að við sem búum í því eða ná­lægt höfum eitt­hvað að segja, sama hvort það er já­kvætt eða nei­kvætt,“ segir Reynir.

Hann telur að fegurðar­mat arki­tekta og al­mennings sé kannski mjög ó­líkt og vísar til rann­sókna í Bret­landi og Sví­þjóð sem sýni að al­menningur sé hrifnari af klassískum arki­tektúr en arki­tektar séu hrifnari af stíl sem endur­spegli nú­tímann.

Margir hafa sagt við mig að ef ég myndi segja þeim að sama manneskjan hafi hannað allar byggingarnar á Ís­landi síðustu 30 árin þá myndi ég trúa því. Því þetta hefur verið eins­leitt og hrein­lega ljótt. Oft er þetta lát­laust og ó­spennandi og í öðrum til­fellum er það bara sjón­mengun verð ég að segja

Byggðin jafn mikilvæg og þéttingin

Reynir segir að þótt svo að stefna Reykja­víkur­borgar sé á þéttingu byggðar þá eigi það ekki að vera á kostnað bygginganna.

„Ég segi alltaf að byggðin skipti jafn miklu máli og þéttingin. Ég held að margir séu hlynntir þéttingu byggðar, og ég er það líka, en ég vil líka að það sé gert rétt og ekki að það sé þétting bara til að þétta,“ segir Reynir.

Hann segir að önnur vídd sem hægt sé að líta til sé sál­fræði og hvernig hönnun hefur á­hrif á líðan okkar og það megi hugsa betur um það.

Reynir segir að þrátt fyrir nei­kvæða um­ræðu hafi margir arki­tektar tekið vel í síðuna og segjast jafn­vel sam­mála grunn­hug­myndunum sem hann setur fram.

„Það eru ekki allir sem hafa verið nei­kvæðir,“ segir Reynir og bætir við að lokum:

„Þó að fag­aðilar skynji um­ræðuna sem nei­kvæða gegn þeim þá er ég líka að benda á aðra mögu­leika og leyfa fólki að tjá sig. Að því sögðu, í stað þess að fara í vörn, væri þá betra að spyrja hvort við erum að byggja of ljótt hér á Ís­landi, hvort þetta sé það sem flestir vilja, hvernig byggingar láta fólki líða vel og hvað sé hægt að gera betur.“