Baldur Borgþórsson, varaborgarfulltrúi Miðflokksins, telur ekki rétt að hinir sex Klaustursþingmenn segi af sér heldur telur hópinn eiga að íhuga sín mál. Baldur er sjálfur bindindismaður og kveðst hafa deilt þekkingu sinni með þingmönnunum, sem hann segir enn vera í áfalli.   

Telur Klaustursmálið styrkja Miðflokkinn

Baldur var gestur í þættinum Bítið á Bylgjunni í morgun, þar sem hann fór um víðan völl en ræddi einnig Klaustursmálið víðfræga. Fjórir samflokksmenn hans úr Miðflokknum eiga þar hlut í máli, eða þau Anna Kolbrún Árnadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólasson. 

Aðspurður segir Baldur málið ekki hafa smitast í borgarstjórn, heldur þyki borgarfulltrúum öllum málið leiðinlegt. Telur hann þó sjálfur að málið muni styrkja Miðflokkinn þó hann sé ósáttur með þann ósóma sem vall út úr þingmönnum á Klausturbar. 
„Maður er náttúrulega ekki sáttur með svona talsmáta eins og var í gangi þarna og það er margt sem ég er ekki sáttur við í þessu máli,“ segir Baldur sem kveðst ekki telja við hæfi að þingmenn á miðjum aldri séu ölvaðir á almannafæri. Bendir hann þó á að ef að þingmennirnir myndu allir segja af sér væri það mikill missir fyrir þingið. 

„Ég er ekki sammála þeirri leið að menn eigi fyrirvaralaust að segja af sér út af svona atburð heldur snýst þetta bara um það,“ útskýrir Baldur „að margur verður af víninu api og þarna átti það sannarlega við.“

Segir samsæti á borð við Klausturssumblið ekki óalgeng

Þingmennirnir sex hafa sætt nokkurri gagnrýni fyrir að sitja að sumbli þegar þinghaldi var ekki lokið, þriðjudaginn 20. nóvember.

Baldur tekur fyrir að þingmennirnir hafi verið að skrópa og segir alla sem vilja vita, vita að það sé verkaskipting á þingi og þingmennirnir sex á Klausturbar hafi verið búnir í vinnunni umræddan dag. „Þarna eru menn komnir í slaka gírinn og ég hefði nú notað hann í eitthvað annað á þriðjudagskvöldi, en gallinn við þetta er að þetta er ekkert óalgengt í pólitík, ég veit að hjá borginni hafa verið haldnar svona uppákomur og teiti, á þriðjudagskvöldi.“

Segir suma vilja hengja hópinn

Baldur er sjálfur bindindismaður og sótti áfengismeðferð hjá SÁÁ á sínum tíma. Segir hann ástæðuna vera að hann hafi ekki verið góður með víni og kveðst því skilja stöðu þingmannanna vel. 

„Við verðum að eiga þann möguleika að geta misstigið okkur án þess að vera aflífuð. Sumir vilja hreinlega henda snörunni fram af Alþingishúsinu og hengja mennina,“ segir hann og bendir á að vín sé ekki innri maður.

„Ef einhver hrasar þá kemur Miðflokksmaðurinn og réttir fram hjálparhönd og reiðir ekki til höggs með sverði. Fyrirgefningarbeiðni hefur verið lögð fram af fullri einlægni,“ segir hann.

Þingmenn ættu að íhuga meðferð

Baldur segist haafa deilt eigin ráðum og reynslu eftir áfengismeðferð með Miðflokksþingmönnum og telur að Klaustursþingmenn ætti að íhuga slíka meðferð, ef þeir eiga erfitt með að leggja vín frá sér. Bendir hann þó á að málið hafi allt verið gífurlegt áfall fyrir hópinn.

„Málið er að ef menn lenda í svona áföllum eins og þarna þá verður að kvikna á perunni að það þurfi að breyta,“ segir Baldur. Segir hann þó hann að auðmýkt hefði mátt vera meiri hjá vissum Klaustursþingmönnum frá upphafi, en segir þó ekki rétt að hópurinn segi af sér tafarlaust.