Náttúruhamfaratrygging Íslands mun meta ástandið á Seyðisfirði í vikunni. Enn er ekki hægt að af­létta rýmingu á því svæði Seyðis­fjarðar sem var rýmt yfir há­tíðirnar eftir aur­skriðurnar sem féllu þar um miðjan síðasta mánuð. Hættu­stig al­manna­varna er á­fram í gildi í bænum.

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratryggingar, mætti í gærmorgun á Seyðisfjörð og hefur rætt við tjónþola og farið yfir stöðuna og verklagið. Sérfræðingar Náttúruhamfaratryggingar verða á svæðinu að minnsta kosti út vikuna til að meta tjón hjá fyrirtækjum og einstaklingum á bæði húseignum og lausafé.

„Við förum inn á svæði þar sem er heimilt að fara en ekki inn á lokuð hættusvæði,“ segir Hulda í samtali við Fréttablaðið. Hún segir fólk sem hún hefur rætt við bera sig nokkuð vel en það sé misjafnt í hvernig stöðu fólk sé.

„Sumir eru ekki tilbúnir að fara í sín hús þó það sé búið að leyfa það, sem er skiljanlegt. Við verðum hér eins lengi og á þarf að halda.“

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratryggingar.
Fréttablaðið/Stefán Karlsson

Verið að skoða varnarkosti

Austurfrétt greindi frá því í morgun að íbúum þeirra íbúðahúsa sem enn eru á rýmingasvæði hefur verið sagt að tæma hús sín og ekki reikna með að geta flutt í þau aftur. Einn íbúanna sagðist hafa verið „í sjokki“ eftir að hafa verið tjáð að Ofanflóðasjóður myndi kaupa húsið hans til að rífa það. Á móti fengi hann styrk til að borga leigu í tvo mánuði.

Hafsteinn Pálsson, starfsmaður Ofanflóðasjóðs segir hins vegar engar slíkar ákvarðanir hafa verið teknar, enda ekki búið að ákveða um slíkt hvorki hjá Ofanflóðanefnd né hjá sveitarfélaginu. Hann áréttar að ef kæmi til þess væri það ákvörðun sveitarstjórnar í samráði við Ofanflóðanefnd. Hlutverk sjóðsins sé að styrkja sveitarfélög til framkvæmda og aðgerða.

Núgildandi kort af Seyðisfirði sem sýnir þau svæði og götur þar sem rýmingar eru enn í gildi. Innan rýmingarsvæðis eru þrettán íbúðir/íbúðarhús.
Mynd: Almannavarnir

„Verið er að skoða varnarkosti og fyrstu tillögur eru væntanlegar á vormánuðum,“ segir Hafsteinn í samtali við Fréttablaðið.

„Við erum í samtali við sveitarfélagið og reynum að styðja við það í samræmi við hlutverk sjóðsins. Áður en teknar eru ákvarðanir um framhaldið þarf að skoða tillögur um varnarkosti en þegar er búið að gera alls konar mælingar um stöðuna í hlíðinni til undirbúnings,“ bætir hann við.

Hafsteinn Pálsson hjá Ofanflóðasjóði.

Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, segir sömuleiðis ekki forsendur fyrir umræðu á milli Ofanflóðasjóðs og sveitarfélagsins um kaup á íbúðarhúsum. Lögð hefur verið á það áhersla við íbúa að vera í sambandi við fulltrúa Náttúruhamfaratrygginga svo hægt sé að leggja mat á mögulegan bótarétt viðkomandi.

Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings.