Borgin Sanya í Hainan-héraði syðst í Kína hefur í gegnum tíðina verið vin­sæll ferða­manna­staður efnaðra Kín­verja í gegnum árin. Þar er að finna fal­legar strendur, milt lofts­lag og góðar verslanir með hag­stæðu verði.

Sumar­leyfi fjöl­margra Kín­verja breyttist hins vegar í mar­tröð um helgina þegar borgar­yfir­völd á­kváðu að setja á út­göngu­bann vegna út­breiðslu kórónu­veirunnar.

Á einni viku hafa rúm­lega 1.200 smit greinst í borginni sem þykir býsna mikið. Það þykir mikið, meira að segja á kín­verskan mæli­kvarða, enda hafa kín­versk yfir­völd jafnan brugðist hart við þegar smit koma upp.

CNN fjallar um þetta og segir að að borginni hafi verið skellt í lás á laugar­dag með til­heyrandi á­hrifum á íbúa og ferða­menn. Ferða­menn mega ekki yfir­gefa borgina nema að fram­vísa fimm nei­kvæðum Co­vid-prófum sem tekin eru á sjö daga tíma­bili. Öllum flug­ferðum frá borginni hefur verið af­lýst um ó­á­kveðinn tíma og það sama má segja um lestar- og rútu­ferðir.

Þetta hefur farið mis­jafn­lega í ferða­menn og greip á­kveðin ringul­reið um sig á flug­velli borgarinnar á laugar­dag þegar ferða­mönnum, sem voru að gera sig klára til að fljúga heim, var snúið við. „Við viljum fara heim!“ kölluðu ferða­menn að laganna vörðum. Þá hefur borið að kvörtunum frá ferðamönnum þess efnis að hótel og veitingastaðir hafi hækkað verð hjá sér og reyni þannig að græða á ástandinu. Yfirvöld í Sanya hafa heitið því að skoða þessar ásakanir ofan í kjölinn.

Út­göngu­bannið mun gilda í eina viku, það er segja ef það tekst að ná smit­tölum niður eins og allt út­lit er fyrir.