Sumarið, sem lýkur formlega í dag, er það sólarminnsta á suðvesturhorni landsins í nærri fjóra áratugi. Langtímaspár héldu.

„Sumarið var gott, hagkvæmt, það kom seint en það var svalt meðan á því stóð. Það sem einkenndi sumarið var hversu þurrt það var. Þurrkurinn hélst áfram eftir þurrt vor. Þetta voru helstu einkennin,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.

Spurður um sólina á Norður- og Austurlandi segir Einar langtímaspárnar hafa staðist.

„Langtímaspárnar sýndu það og það gekk svo sem eftir en langtímaspárnar miða gjarnan við þriggja mánaða tímabil en sumarið passaði svo sem ekki alveg inn í það. Það var kalt alveg fram að Jónsmessu. En þær náðu ágætlega, ef ég man þetta rétt, hitanum á Norður- og Austurlandi en þær voru svona út og suður með þetta,“ segir Einar.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.

Fádæma hlýtt fyrir norðan

Trausti Jónsson veðurfræðingur segir það hafa verið fádæma hlýtt fyrir norðan og nærri því að það hafi verið methlýindi í tvo og hálfan mánuð.

„Á Suðvesturlandi var einstaklega mikið skýjað og óvenju sólarlítið en það var hins vegar lengi framan af þurrt. Þannig að það er óvenjulegt að það sé sólarríkt og þurrt. Seinni hluti sumarsins var hins vegar vætusamur. Þannig að það rættist úr með það,“ segir Trausti.

„Þetta er samt dálítið óvenjulegt því sumarið sem keppir við þetta sumar í sólarleysi er árið 1983 sem var alveg einstaklega vont sumar á Suðvesturlandi. En þetta sumar var miklu hlýrra og miklu veðrabetra. Það var ekki eins hvasst og miklu skárra veður. Þannig að þó það hafi verið sólarlaust var ágætis veður lengst af, alveg þangað til í september.

.

Trausti Jónsson, veðurfræðingur
Fréttablaðið/GVA

Veturinn oft ófyrirsjáanlegur

Trausti vildi ekki gefa langtímaspá fyrir veturinn að svo stöddu

Einar segir mjög lítið hönd á festandi næstu þrjá mánuði. Niðurstöður þriggja mánaða spánna séu ekki skýrar. Þá er íslenski veturinn oft ófyrirsjáanlegur. „Við höfum það bak við eyrað að síðustu tveir vetur voru eins og svart og hvítt.“