„Þetta eru einhver mistök hjá sýslumanni og skattinum. Það er ekkert uppboð að fara fram,“ segir Sigurður Aðalsteinsson, faðir Gylfa Þórs Sigurðssonar, en fréttir birtust um helgina um að skatturinn ætlaði að bjóða upp sumarhús Gylfa í Grímsnes- og Grafningshreppi og áætlað var að það færi fram á fimmtudag.

Sigurður, sem staddur er á Spáni, trúði ekki sínum eigin augum þegar hann sá fréttirnar um málið og viðurkennir í léttum dúr að fréttin hafi komið sér spánskt fyrir sjónir.

„Gylfi er búinn að vera búsettur í Englandi síðan 2006 og hann skuldar skattinum enga peninga. Hann borgar sína skatta í Englandi.

Það getur vel verið að þetta sé einhver áætlun hjá skattinum og það er verið að leiðrétta þetta ef það er ekki þegar búið,“ segir Sigurður.

Sigurður Aðalsteinsson.jpg

Sigurður Aðalsteinsson

Hann gat ómögulega sagt til um á hvaða vegferð skatturinn væri enda hefði Gylfi verið búsettur erlendis í hartnær 16 ár og fjölskyldan kannaðist ekkert við að hafa fengið eitthvað frá skattinum. „Það var ekki haft samband við fjölskylduna og ekki einn né neinn.

Það tekur greinilega svolítinn tíma að kippa svona hlutum út og ég er ekki viss að skatturinn hafi beðið um uppboð. Ég er ekki einu sinni viss að það hafi verið rétt að þessu staðið þó ég ætli ekki að fullyrða um það,“ segir Sigurður sem er allt annað en ánægður með aðfarirnar.

„Þetta er ekki alveg eins og þetta á að vera. Mér finnst skatturinn hafa farið offari í þessu máli. Þetta verður ekkert mál en það þarf bara að leiðrétta þetta,“ segir Sigurður.

Gylfi Þór er í farbanni í Bretlandi þar til um miðjan apríl en hann sætir þar rannsókn vegna gruns um að hafa brotið kynferðislega á ungmenni. Hann var handtekinn í júlí á síðasta ári og húsleit gerð á heimili hans. Gylfa Þór var svo sleppt gegn tryggingu og hefur hann verið í farbanni síðan.

Fyrir handtökuna spilaði hann með enska liðinu Everton en liðið hefur gefið út að hann muni ekki spila aftur með því fyrr en rannsókn lögreglu lýkur.