Allir fara í sumarfrí en ekki allir nenna að fara í Landmannalaugar eða sleikja sólina á Tenerife eins og hinir. Sumir vilja einfaldlega eyða, eða réttara sagt verja, frítímanum sínum uppi í sófa og gera það sem þeim finnst skemmtilegast. Og það er ekkert að því. Fréttablaðið fékk nokkra menningarneytendur til að mæla með góðu efni fyrir nördana að háma í sig í fríinu.

Eva Margrét Guðnadóttir

Tölvuleikir

God of War

 1. Pummel Party er frábær leikur til þess að spila með vinum sínum. Leikurinn er í raun borðspil þar sem spilaðir eru ‘’mini’’ leikir og þú getur skemmt fyrir mótspilurunum þínum í leiðinni.
 2. God of war er klassískur leikur sem ég get gleymt mér í tímunum saman. Geggjaður leikur í alla staði, grafík, tónlist og söguþráðurinn. Mæli með þessum ef þú vilt dunda þér ein/nn fyrir framan tölvuna.
 3. Golf with friends. Snilldar leikur þegar maður kemst ekki á alvöru golfvöll útaf skítaveðri. Reynir reyndar á þolinmæðina stundum, sérstaklega þegar þú spilar á móti vinum þínum.
 4. Call of Duty. Ég get ekki sleppt því að minnast á uppáhalds leikinn minn. Klassísku leikur til að henda sér í, hvort sem það er til Caldera með vinunum eða í ‘’multiplayer’’ í Vanguard.
 5. Jackbox Party. Jackbox Party eru tölvuleikja ‘’pakkar’’ sem þú getur keypt, hver pakki inniheldur fimm litla partý leiki. Þessir eru líka frábærir til að spila með fjölskyldunni, þú þarft ekki einu sinni stýripinna til að spila, bara símann!

Ágúst Magnússon

Bíómyndir

Con Air

 1. Road House. Patrick Swayze sýnir stórleik sem James Dalton, goðsagnakenndur útkastari með doktorsgráðu í heimspeki. Með flaksandi möllet, Marlboro Reds og Daóísk spakmæli að vopni berst Dalton gegn fúlmennum og fávisku. Mynd sem vekur mann til umhugsunar um tilgang lífsins.
 2. Miami Vice. Colin Farrel setur hér Evrópumet í að vera sjúskaður, suðrænn og seiðandi sem hinn goðsagnakenndi Sonny Crockett. Með skítugt yfirskegg á vör og hrímaðan mojito í hönd býður Farrell, ásamt félaga sínum Jamie Foxx, upp á djúpstæða íhugun um eðli vináttunnar og hina örþunnu línu sem skilur að hið góða og illa í hjörtum okkar allra.
 3. Stone Cold. Brian „The Boz“ Bosworth, sem hafði gert garðinn frægan með Seattle Seahawks í amerísku NFL deildinni, sýnir hér fram á bæði leik- og hársigur sem leynilögreglumaður sem fer huldu höfði innan raða hvítra þjóðernissinna. Karakterleikararnir Lance Henriksen og William Forsythe, sem leika foringja glæpasamtakanna, kafa svo djúpt ofan í eðli illskunnar að annað eins hefur ekki sést síðan John Milton skrifaði Paradísarmissi.
 4. Hard Target. Belgíski konfektmolinn og vöðvatröllið Jean-Claude Van Damme löðrar af bæði svita og dygð í mynd eftir hinn dásamlega John Woo. Myndin bíður ekki aðeins upp á margþætta gagnrýni á rányrkju og óréttlæti kapítalismans heldur einnig upp á algjöra veislu hvað hringspörk varðar.
 5. Con Air. Gríski heimspekingurinn Platón, í bók sinni Ríkið, hélt því fram að skáldskaparlistin gæti aldrei birt okkur sannleikann um mannlega náttúru. Nicolas Cage afsannar kenningu Platóns eftirminnilega í þessari frábæru mynd.

Kamilla Einarsdóttir

Sjónvarpsþættir

Love and Anarchy

 1. Love and Anarchy. Eru sænskir þættir á Netflix. Ótrúlega vel skrifaðir og leiknir þættir sem gera meðal annars mjög mikið grín af bókaútgáfubransanum. Það eru komnar tvær seríur og ég get ekki beðið eftir þeirri þriðju
 2. Allt með Louis Theroux. Nýjasta serían heitir: Forbidden America . Þetta er þriggja þátta sería sem fjallar um alt-right hreyfinguna, rapp og klám. Gott að hámhorfa á þessa þætti en kannski horfa svo bara á eitthvað grín eftir á.
 3. Venjulegt fólk. Ég horfði á heila seríu í flugi um daginn og ég hló svo mikið að ég vakti greyið manninn sem var að reyna að sofa við hliðina á mér. Með því besta sem gert hefur verið í íslensku sjónvarpi.
 4. The Simpsons. Þriðja og fjórða serían eru langbestar en það eru komnar svo margar seríur að það er alveg hægt að hafa ofan af sér í gegnum heilt sumar og langt fram á haust við að horfa á þær allar
 5. Ísskápastríð. Vinir mínir gera smá grín af mér fyrir að vera með æði fyrir þessum þáttum því ég horfi alltaf en kann samt varla að rista brauð. En fólkið Eva Laufey og Gummi Ben eru bara svo skemmtileg og dómararnir svo hjálpsamir og svo endar allt vel og allir fá verðlaun. Mjög gott fyrir fólk sem er eitthvað lítið í sér að horfa á þessa þætti

Kristinn Haukur Guðnason

Borðspil

Ark Nova

 1. Ark Nova. Langheitasta „Euro spilið“ í dag sem rokið hefur út eins og heitar lummur. Fjallar um að búa til besta dýragarðinn og styðja við verkefni til að varðveita dýrategundir.
 2. Kemet. Nýklassískt stríðsspil um egypska guði sem kom út í nýrri útgáfu á síðasta ári. Ólíkt flestum öðrum tekur það stuttan tíma því að leikmönnum er verðlaunað fyrir að ráðast strax á hvern annan.
 3. The Crew: Mission Deep Sea. Stutt og fjölbreytt kortaspil sem minnir á félagsvist nema allir eru saman í liði og mega ekki tala um spilin sín. Framhald af The Crew: The Quest For Planet Nine og betra spil.
 4. Azul. Það eru til nokkrar útgáfur af flísalasgningaspilinu Azul en sú fyrsta er klassík. Ekki borða flísarnar.
 5. Orleans. Frábært spil þar sem leikmenn byggja upp miðalda hérað með því að draga flísar úr poka. Hægt að spila sóló, í samvinnu eða allir á móti öllum.

Baldur Ragnarsson

Hlaðvörp

Dungeons and Daddies

 1. Í ljósi sögunnar. Ef svo ólíklega vill til að einhver þarna úti þekki það ekki þá er það allt sem þú þarft í sumar. Vera Illuga segir okkur sögur úr fortíðinni á einstaklega sjarmerandi máta og þess má geta að þetta hlaðvarp er ástæðan fyrir því að ég fór að búa til hlaðvörp. Þetta er enn þá best.
 2. Behind the bastards. Robert Evans fær til sín gesti og segir þeim frá hörmulegasta fólki mannkynssögunnar. Það gefur ferðalagi aukið vægi að vita hversu heppinn maður er að vera ekki með Stalín í tjaldi.
 3. Dungeons and daddies. Fjórir vinir spila hlutverkaspil án þess að hengja sig um of í reglurnar. Fjórir pabbar á leið með syni sína á fótboltamót keyra óvænt í gegnum töfrahlið og enda í Forgotten Realms. Löng og drepfyndin ferðasaga sem er jafnt fyrir aðdáendur hlutverkaspila og ekki.
 4. No dogs in space. Amerísk hjón gera sínum uppáhalds hljómsveitum gríðarlega góð skil. Hver hljómsveit fær góðan tíma, hljóðdæmi eru spiluð og þau kafa djúpt í ferilinn sem og persónulegar sögur meðlima. Og eins og allir vita getur tónlist bjargað ferðalagi jafn auðveldlega og ristavél gamalli brauðsneið.
 5. Swindled. Áhyggjufullur þjóðfélagsþegn tekur fyrir stærstu svindlara sögunnar í mjög skemmtilega unnu hlaðvarpi. Hver þáttur er sérstandandi saga svo þetta hentar vel í rúnt um landið. Og hver veit nema maður læri eitthvað gagnlegt í leiðinni, til dæmis að hafa varann á svo að einhver drulli í einhverri sjoppu á Vestfjörðum nái ekki að hirða aleiguna af manni og flýja land áður en maður áttar sig á því að maður er gjaldþrota. Þú ert í raun að spara með því að hlusta.

Lóa Hjálmtýsdóttir

Bækur/Comix

Crisis Zone

 1. Afternoon at McBurgers eftir Ana Galvañ. Skrýtin og falleg bók. Ég uppgötvaði hana í hillubilinu mínu í Nexus. Það eru tvær hillustæður sem ég sæki hve mest í þegar ég er ekki að kaupa Pokémonspjöld fyrir son minn.
 2. City of Belgium eftir Brett Evens. Draumkennd bók um djammið og líklega tilvalin til að lesa um sumarnótt á meðan öskrandi og fáklætt skakar sér á skemmtistöðum.
 3. Good Night Hem eftir Jason. Ljóðræn bók með þremur sögum sem fjallar lauslega um Hemingway. Ég er mikill Jason aðdáandi svo ég mun aldrei hallmæla bókunum hans. Ætli það sé ekki best að lesa hana á meðan besti vinur þinn pantar sér miða á Þjóðhátíð í Eyjum.
 4. Crisis Zone, Simon Hanselmann. Þessi höfundur er mjög niðurdrepandi en ég er hrifin. Hana er best að lesa inni á meðan nágranninn slær grasið í glampandi sól.
 5. Ég tók eftir því um daginn að allt Far Side er til í fallegu boxsetti í Nexus. Ég var einmitt að endurnýja kynni mín af Gary Larson í gegnum son minn. Með þennan kassa við höndina er óþarfi að fara annað í sumarfrí en við eldhúsborðið með kókópöffs og ískalda mjólk.

Svo á fólk að sjálfsögðu að verja sumarfríinu á myndasögudeildinni á Borgarbókasafninu í Grófinni og tékka á myndasögudoðrantinum Dæs eftir mig sjálfa.