Jón Valgeir Pálsson, björgunarsveitarmaður og staðarhaldari á Þórisstöðum í Svínadal, upplifði ótrúlegt fárviðri þar fyrir helgi. Heill sumarbústaður losnaði frá grunni, tókst á loft og splundraðist í þúsund flísar. Heitur pottur fauk út í loftið og hefur enn ekki fundist. Bílar og hjólhýsi fóru á hliðina þrátt fyrir hafa verið fest niður með járni í jörðu og Jón Valgeir sá tveggja tonna Subaru takast á loft og snúast í hringi.

„Við vorum endalaust að fjúka í loftið. Bílar lyftust upp. Þetta eru um átta bílar sem skemmdust eitthvað. Það er þó lítið foktjón. Sex hjólhýsi eru eitthvað ónýt og eitt alveg skemmt.“

Mildi þykir að enginn hafi slasast alvarlega í veðurofsanum. Einn maður tókst á loft og slasaðist á fæti þegar hann lenti á jörðinni. Hann fór á sjúkrahús í Reykjavík eftir að vind lægði.

„Það er oft hvasst á Þórisstöðum en þetta var einstakt,“ segir Jón Valgeir í samtali við Fréttablaðið. Jón segist ekki vera með nákvæma tölu yfir vindhraðann. Hann upplifði gríðarlegt aftakaveður í björgunarsveitinni þegar vindhraði sló í 110 metra á sekúndu þegar hann fór upp á Langjökul. Þá hafi rúðurnar í jeppanum sprungið.

Sex hjólhýsi eru ónýt eftir stórveðrið.
Mynd/Jón Valgeir

„Ég hef oft farið í veðurútköll og þetta minnti mig á ferðina upp á Langjökul,“ segir Jón Valgeir. Býsna hvasst var um vestanvert landið á föstudaginn og fór vindhraði í hviðum upp í 71 metra á sekúndu í sjálfvirka vindhraðamælinum við Hafnarfjall. Jón Valgeir segir að það gæti hafa verið svipað, ef ekki verra á Þórisstöðum.

„Einn sumarbústaðurinn er horfinn. Hann hefur losnað frá grunni og tekist á loft í óveðrinu og splundrast. Engar spýtur eru heilar. Þetta eru bara tannstönglar. Við finnum ekki heita pottinn,“ segir Jón Valgeir.

Restin af bústaðnum sem tókst á loft. Þarna sjást ofnar og ónýt gluggafög.
Mynd/Jón Valgeir

Einn Mercedes Benz húsbíll, sem var um fjögur tonn á þyngd, með hátt í tonn af varahlutum og járni í fram- og aftursætum og skotti, var festur niður með járnstöngum á fjórum stöðum. Þrátt fyrir það rifnaði járnið upp úr jörðinni og fór bíllinn á hliðina.

Fimm tonna Benz fór á hliðina í ofsaveðrinu.
Mynd/Jón Valgeir

Jón Valgeir var ásamt fjórum mönnum að festa allt niður áður en óveðrið skall á. Þeir hafi þó verið allt kvöldið og nóttina að reyna að koma í veg fyrir tjón þegar festingar gáfu sig.

„Við vorum í skjóli í golfskálanum hjá mér. En allan tímann í rokinu vorum við líka að reyna að festa niður hluti og reyna að bjarga hinu og þessu. Við vorum búnir að festa niður hjólhýsi sem voru að lyftast. Eitt splundraðist af grindinni. Þakplötur fuku af hlöðunni og gluggar sprungu í vindinum. Það eina sem við gátum gert var að halda okkur í og skríða eftir jörðinni,“ segir Jón Valgeir. Nokkrir menn hafi reynt að ganga saman niður í hjólhýsabyggðina, sem var um 250 til 300 metrum í burtu, en gáfust upp.

„Þakplötur fuku af hlöðunni og gluggar sprungu í vindinum.“
Mynd/Jón Valgeir
Tjón varð á átta hjólhýsum..
Mynd/Jón Valgeir

Jón Valgeir segir að stór og sterk tré hafi brotnað í mestu hviðunum.

„Öspin er sterkt tré og stendur í skjóli við mjólkurhúsið og haughúsið. Toppurinn stendur upp fyrir haughúsið og hann klipptist bara af. Haugur af stórum og sterkum trjám brotnaði.“

Toppurinn brotnaði af einni öspinni.
Mynd/Jón Valgeir
Vindmælir á Skarðsheiði skammt frá.