Nú þegar hlýnað hefur í veðri og sólin lætur sjá sig víða um land eru margir bjart­sýnir á að veiran sé á undan­haldi en Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir segir það vera hegðun fólks sem er lykil­at­riði þegar kemur að út­breiðslu veirunnar, ekki veðrið.

„Við erum búin að ræða þetta í gegnum far­aldurinn aftur og aftur, hvort að það breytist eitt­hvað, og ég get nú ekki séð að það skipti nokkru máli,“ segir Þór­ólfur í sam­tali við Frétta­blaðið að­spurður um hvort það fari að draga úr smitum sam­hliða sumrinu.

Síðasta sumar veitir einhverjar vísbendingar

Alma Möller land­læknir vísaði til þess á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna fyrr í mánuðinum að veiran hafi legið í láginni síðasta sumar og að veiran væri að vissu leiti árs­tíða­bundin. Þá væri hægt að fyllast meiri bjart­sýni eftir því sem bólu­setningum vindur á­fram.

Magnús Gott­freðs­son, yfir­læknir á Land­spítala og prófessor í smit­sjúk­dómum við Há­skóla Ís­lands, greindi aftur á móti frá því í kjöl­farið að þrátt fyrir að síðasta sumar hafi gefið ýmsar vís­bendingar um hversu árs­tíða­bundin veiran er sé það ekki fylli­lega vitað.

„Það er fyrst og fremst hegðun okkar mannanna sem skiptir máli, hvernig við erum, hvernig við hegðum okkur, hvernig okkar per­sónu­legu sýkinga­varnir eru. Það er það sem skiptir öllu máli,“ segir Þór­ólfur í dag.

Sömu takmarkanir inni og úti

Að­spurður um hvort óttast er um hópa­myndanir utan­dyra þegar tekur að hlýna vísar Þór­ólfur til þess að sam­komu­tak­markanir séu á­fram í gildi sama hvort það sé inni eða úti, það er 20 manna sam­komu­tak­markanir og tveggja metra regla.

„Fólk getur náttúru­lega dreift sér meira þannig að það er minni nánd úti þannig það ætti að vera minni sýkingar­hætta, en svo fer það bara eftir hvernig fólk er að hópast úti við,“ segir Þór­ólfur.