Árni Arnþórsson, aðstoðarrektor bandaríska háskólans í Kabúl, stendur enn frammi fyrir ærnu starfi.

Frá því að Talibanar komust aftur til valda í Afganistan hefur Árni unnið baki brotnu við að koma nemendum skólans úr landi, þar sem þeir eiga á hættu ofsóknir af hálfu hinna nýju stjórnvalda.

„Ég er á leiðinni til Katar fljótlega,“ segir Árni, en hundrað fyrrverandi nemendur hafa fengið vegabréfs­áritun þangað.

„Þar munum við bjóða upp á okkar háskólanám á næstu árum ásamt því eða vera á netinu. Við erum að setja upp geðheilbrigðishjálp fyrir nemendurna,“ segir Árni.

„Skiljanlega hefur þetta verið gríðarlega andlega erfitt fyrir þau og mikið af hegðunarvandamálum hjá nemendum okkar í Írak og Kirgistan. Við erum búin að eiga við tvær sjálfsmorðstilraunir hjá krökkunum. Sum þeirra voru að yfirgefa fjölskyldur sínar og sjá þær kannski aldrei aftur. Við erum að reyna að hjálpa þeim að aðlagast nýjum aðstæðum.“

Árni hefur unnið með sínu teymi við að hitta krakkana tvisvar á dag og mun fylgjast vel með þeim þegar þar að kemur.

„Við erum með nokkur námskeið í andlegri heilsu og við erum að búa til aðstoðarkerfi fyrir þau í sambandi við námið. Við höfum oft orðið vör við það að krökkum gengur illa í náminu af því að andlega heilsan er bara ekki í lagi,“ segir Árni.

Árni snýr aftur til Katar á næstunni.
Fréttablaðið/Eyþór

Auk nemendanna hundrað sem bíða þess að komast til Katar hafa ellefu fengið vegabréfsáritun til Kirgistan, en Árni segir að þar sé um að ræða nemendur sem voru með námsstyrki frá Bandaríkjunum.

„Ég var að fara að kaupa miða til Kirgistan en þá kom á daginn að Talibanar hafa sett nýjar reglur um að þeir sem eru með vegabréfs­áritanir eða landvistarleyfi annars staðar þurfi að fara til utanríkisráðuneytisins með afrit af vegabréfunum,“ segir Árni. Senda þurfi lista til sendiráða Afganistan til að staðfesta með utanríkisráðuneytinu að vegabréfsáritunin sé ekki fölsuð.

„Rétt áðan kom upp að einni stúlkunni var neitað um staðfestingu vegna þess að hún hefur ekki mahram [fylgdarmann sem er faðir eða bróðir] með sér til Kirgistan. Þetta er nýtt vandamál sem við erum að reyna að leysa.“

Árni segir Katara hafa annast flest bein samskipti við sendiráðsfulltrúa Talibana en hann hafi þó undanfarið rætt dálítið við þá sjálfur.

„Ég hef þurft að tala við einhverja Talibana í síðustu viðtölum en maður hugsar ekkert um það. Ég er búinn að hitta marga í Afganistan sem eru líklega stórglæpamenn en við verðum bara að líta fram hjá því stundum þegar við hittum fólk.“