Nýjar neyðar­reglur hafa tekið gildi í Suður Afríku þar sem meðal annars er lagt blátt bann við sölu á á­fengi. Að sögn for­seta landsins, Cyril Ramap­hosa, er á­vinningur þess að færri þurfi að leggjast inn á sjúkra­hús vegna á­fengis­neyslu. Það þýddi að fleiri sjúkra­rúm væru í boði á spítölum og að minni smit­hættu væri þar að finna.

Þetta er í annað skipti á þessu ári sem bann við á­fengi er sett á í landinu vegna far­aldursins en út­göngu­bann er einnig í gildi á næturnar.

Nýsmitum fjölgar ört í Suður Afríku um þessar mundir.
Fréttablaðið/Getty

Herða reglurnar

Öllum í­búum landsins er einnig gert að bera and­lits­grímu utan­dyra öllum stundum sam­kvæmt nýju reglunum.

For­setinn á­varpaði þjóðina á dögunum og sagði „flesta“ hafa sýnt við­leitni og reynt að leggja sitt af mörkum til að hefta út­breiðslu, en að enn væru í­búar sem sýndu á­byrgðar­leysi og höfðu ekkert breytt hegðun sinni.

Færist í aukanna

Ný­smitum hefur fjölgað til muna á síðustu vikum og er fjöldi smita nú orðin nærri 280 þúsund. Þá hafa 4.079 manns látist af völdum Co­vid-19 veirunnar í landinu. Ríkis­stjórnin spáir því að sú tala muni hækka eftir því sem líður á árið og gætu allt að 50 þúsund manns látið lífið vegna sjúk­dómsins fyrir lok ársins.

Suður Afríka er það land í álfunni sem hefur komið hvað verst út úr far­aldrinum en fyrr í vikunni mældist mann­skæðasti dagur í landinu frá upp­hafi.