Fyrsti 100% rafbíllinn frá Subaru, Solterra, er væntanlegur á alla helstu markaði um mitt næsta ár samkvæmt tilkynningu frá Subaru sem gefin var út í vikunni. Solterra er jepplingur í stærðarflokki C, og bætist þar í flóru annarra jepplinga frá Subaru, svo sem Outback, Forester og XV. Solterra verður byggður á nýjum undirvagni, svokölluðum e-Subaru Global Platform, sem Subaru ætlar einnig undir fleiri gerðir rafbíla á næstu árum.

Undirvagninn var þróaður í samstarfi við Toyota og verða jafnframt samnýttir ýmsir íhlutir frá báðum aðilum við framleiðslu rafbílsins, sem lækkað geta þróunar- og framleiðslukostnað og flýtt fyrir markaðssetningu bílsins. Solterra er væntanlegur á markað um mitt ár 2022 í Japan, Bandaríkjunum, Kanada, Evrópu og Kína.