Aðeins nokkrum dögum eftir að Toyota kynnti bZ4x rafbílinn sinn kynnti Subaru til sögunnar Solterra rafbílinn í lok vikunnar. Bíllinn var frumsýndur í Japan en honum er ætlað að seljast á alþjóðlegum markaði.

Subaru Solterra verður aðeins seldur sem fjórhjóladrifsbíll og er hann með tveimur 107 hestafla rafmótorum. Samtals skilar hann því 215 hestöflum gegnum X-Mode fjórhjóldrifskerfið.

Bíllinn verður með sömu 71,4 kWst rafhlöðu og systurbíllinn frá Toyota sem gefur honum allt að 460 km drægi. Bíllinn er nokkuð líkur bZ4x fyrir utan framsvipinn sem er ákveðnari.

Það sama á við innandyra þar sem sams konar skjábúnaður er fyrir hendi, með sáralitlum breytingum á innréttingu.

Búast má við bílnum í sölu í Evrópu snemma næsta sumar, en fyrstu eintökin á Íslandi koma í júní.