Frans páfi segir að hann telji rétt að samkynja pör fái borgaralega vígslu. Orðin lét páfi falla í heimildarmyndinni Francesco sem frumsýnd var á kvikmyndahátíðinni í Róm í gær.

„Samkynhneigðir eiga rétt á því að vera í fjölskyldu,“ sagði Frans páfi. „Þeir eru börn Guðs og eiga rétt á því að stofna fjölskyldu.“ Kallar hann eftir að kaþólskar þjóðir heims komi í kring sérstakri löggjöf sambærilegri og staðfest samvist var hér á landi áður en hjónabönd samkynhneigðra voru leidd í lög. „Það þarf að setja lög sem heimila borgaralega vígslu. Þannig eiga slík pör að vera vernduð með lögum.“