Rannsókn á hryðjuverkamálinu er á lokametrum að sögn héraðssaksóknara. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort framlengt verði gæsluvarðhald yfir sakborningunum tveimur, en gæsluvarðhaldið á að renna út næstkomandi fimmtudag.
„Það verður tekin ákvörðun um það annað hvort í dag eða á morgun,“ segir Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari.

Ólafur segir að rannsókn málsins sé á lokametrum og að það styttist í niðurstöðu í málinu.
Eru sakborningarnir enn grunaðir um hryðjuverk?
„Það sem gerist eftir að búið er að ljúka rannsókn, þá á eftir að taka ákvörðun um saksókn, en það geta orðið nokkrar niðurstöður úr því. Þannig við getum ekkert tjáð okkur um það fyrr en niðurstaðan liggur fyrir, ella getum við gert okkur vanhæf með að svara svona spurningum já eða nei,“ segir Ólafur.
Þá segir Ólafur að engir fleiri hafi verið handteknir vegna málsins.