Rann­sókn á hryðju­verka­málinu er á loka­metrum að sögn héraðs­sak­sóknara. Ekki hefur verið tekin á­kvörðun um hvort fram­lengt verði gæslu­varð­hald yfir sak­borningunum tveimur, en gæslu­varð­haldið á að renna út næst­komandi fimmtu­dag.

„Það verður tekin á­kvörðun um það annað hvort í dag eða á morgun,“ segir Ólafur Þór Hauks­son, héraðs­sak­sóknari.

Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari.
Fréttablaðið/GVA

Ólafur segir að rann­sókn málsins sé á loka­metrum og að það styttist í niður­stöðu í málinu.

Eru sak­borningarnir enn grunaðir um hryðju­verk?

„Það sem gerist eftir að búið er að ljúka rann­sókn, þá á eftir að taka á­kvörðun um sak­sókn, en það geta orðið nokkrar niður­stöður úr því. Þannig við getum ekkert tjáð okkur um það fyrr en niður­staðan liggur fyrir, ella getum við gert okkur van­hæf með að svara svona spurningum já eða nei,“ segir Ólafur.

Þá segir Ólafur að engir fleiri hafi verið hand­teknir vegna málsins.