Fanndís Birna Logadóttir
fanndis@frettabladid.is
Mánudagur 28. september 2020
06.30 GMT

Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum fara fram þriðjudaginn 3. nóvember og því eru aðeins rétt rúmar fimm vikur í að kjördagur renni upp þar í landi. Líkt og flestum er kunnugt mætir Donald Trump Bandaríkjaforseti þar Joe Biden, fyrrverandi varaforseta og forsetaframbjóðanda Demókrata.

Um er að ræða einhverja stærstu kosningu í sögu Bandaríkjanna og má búast við að bæði Trump og Biden muni berjast allt fram að lokadegi. Það er þó ekki aðeins verið að kjósa um næsta forseta Bandaríkjanna heldur er einnig verið að kjósa um 13 ríkisstjóra, 35 sæti í öldungadeild Bandaríkjaþings, og öll sætin í fulltrúadeildinni.

Stóru málin

Kosningarnar í ár verða öðruvísi en fyrri kosningar vegna kórónaveirufaraldursins en flest ríki Bandaríkjanna bjóða nú upp á að kjósendur geti greitt atkvæði með póstatkvæðum vilji þeir ekki mæta á kjörstað. Þrátt fyrir að slík atkvæðagreiðsla sé ekki ný af nálinni í Bandaríkjunum hefur Trump gefið það út að slíkt leiði til kosningasvindls og hefur jafnvel hótað að virða ekki úrslit kosninganna.

Búast má við að helstu baráttumálin fyrir komandi kosningar verði margþætt en efnahags- og heilbrigðismál hafa verið mikið í deiglunni auk samfélagsmála í skugga kórónaveirufaraldursins og fjölmennra mótmæla. Þá má einnig búast við að tilnefning Amy Coney Barrett í Hæstarétt Bandaríkjanna verði umdeild en verði Barrett skipuð gæti það breytt miklu.

Fylgi

Eins og staðan er í dag er Joe Biden að mælast sterkari í könnunum, Biden er með rúmlega 50 prósent fylgi en Trump er með um og yfir 43 prósent fylgi. Þrátt fyrir að flestar kannanir geri ráð fyrir sigri Bidens eru enn 36 dagar í kosningar og ýmislegt sem getur breyst á þeim tíma.

Eflaust eru einnig margir tregir til að leggja of mikinn þunga á kannanir þar sem þær reyndust flestar rangar árið 2016, þar sem Hillary Clinton var spáð sigri. Þó er ýmislegt sem bendir til þess að kannanirnar í ár verði betri, ekki síst þar sem breytingar voru gerðar á framkvæmd kannanna eftir ósigur Clinton.

Barátturíki

Það er talið nánast öruggt að ákveðin ríki fari til annað hvort Biden eða Trump en í öðrum ríkjum eru niðurstöðurnar ekki svo afdráttalausar. Í gegnum söguna hafa ákveðin ríki verið flokkuð sem svokölluð sveifluríki (e.swing states) eða barátturíki (e. battleground states) en í ár eru þau sex talsins.

Þau ríki eru Flórída, Norður-Karólína, Arizona, Pennsylvanía, Michigan og Wisconsin. Þá er einnig vert að fylgjast með Georgíu, Texas, Ohio, Iowa, Minnesota, New Hampshire og Nevada. Clinton vann Minnesota, New Hampshire og Nevada árið 2016 á meðan Trump vann hin ríkin.

Á heimasíðu fivethirtyeight.com má finna niðurstöður úr helstu könnunum en á kortinu hér fyrir neðan er hægt að sjá hvaða ríki eru líkleg til að fara til Trump og hvaða ríki eru líkleg til að fara til Biden, samkvæmt nýjustu könnunum. Þó stendur það og fellur með kjörsókninni, sem gæti raskast í ár vegna kórónaveirufaraldursins, og því mikilvægt að taka niðurstöðunum með fyrirvara.

Utankjörfundarseðlar og póstatkvæðagreiðsla

Síðastliðin ár hefur kjósendum staðið til boða, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, að greiða atkvæði fyrir kjördag með utankjörfundarseðlum. Vegna COVID-19 heimsfaraldursins hafa flest ríki rýmkað skilyrðin svo að sem flestir geti greitt atkvæði í kosningunum.

Níu ríki, auk Washington D.C., senda öllum skráðum kjósendum atkvæðaseðla að fyrra bragði. Í öðrum ríki þarf fólk að sækja sérstaklega um slíka seðla en sex ríki, til að mynda Texas, krefjast þess að kjósendur færi rök fyrir því að þau fái að kjósa utan kjörfundar.

Misjafnt er eftir ríkjum hvenær kjósendur þurfa að sækja um utankjörfundarseðla. Fjögur ríki eru ekki með umsóknarfrest en annars er fresturinn ýmist frá 9. október til 2. nóvember. Þá er það einnig misjafnt hvenær þarf að skila seðlunum inn en 28 ríki gera kröfu um að atkvæðin berist fyrir eða á kjördag. Í öðrum ríkjum þurfa seðlarnir að vera póstlagðir á eða fyrir kjördag.

Kappræður

Alls fara fram þrjár kappræður milli forsetaframbjóðandanna, Trump og Biden, og ein á milli varaforsetaframbjóðandanna, Pence og Harris. Kappræðurnar fara fram í fjórum ríkjum, hefjast allar klukkan eitt eftir miðnætti að íslenskum tíma og standa yfir í 90 mínútur.

Trump óskaði eftir því í byrjun ágúst að fjórðu kappræðunum milli forsetaframbjóðandanna yrði bætt við en lögmaður Trumps, Rudy Giuliani, færði rök fyrir því að þar sem ákveðin ríki væru búin að senda utankjörfundarseðla til kjósenda fyrir fyrstu kappræðurnar væri þörf á að bæta við kappræðum snemma í september.

Nefnd um forsetakappræður, CDP, féllst þó ekki á þann rökstuðning þar sem kjósendum bæri engin skylda til að skila inn atkvæðum fyrir kappræðurnar. Það var því ákveðið að þær yrðu ekki fleiri.

Hvenær má búast við niðurstöðum?

Vegna kórónaveirufaraldursins má búast við því að niðurstöður kosninganna liggi ekki fyrir fyrr en nokkrum dögum eða jafnvel vikum síðar þar sem margir koma eflaust til með að kjósa utankjörfundar. Þá tekur einnig tíma að telja þau atkvæði og gætu niðurstöðurnar því tafist enn frekar.

Engu að síður gera mörg stærstu fylkin kröfu um að póstatkvæðum verði skilað inn fyrir kosningarnar og er miðað við að atkvæði séu um viku að berast með pósti. Mögulega verður hægt að draga ályktanir um niðurstöðurnar strax eftir kosningarnar út frá niðurstöðum barátturíkja.

Hér fyrir neðan má nálgast helstu tímasetningar fram að kosningum og næstu daga þar á eftir. Rétt er að taka fram að tímasetningarnar gætu breyst lítillega.


 • 29. september
  Fyrstu forsetakappræðurnar í Cleveland í Ohio. Umræðustjóri er Chris Wallace frá Fox News.
 • 7. október:
  Varaforsetakappræðurnar fara fram í Salt Lake City í Utah. Umræðustjóri er Susan Page frá USA Today.
 • 12. október:
  Búist við að málflutningur muni hefjast vegna tilnefningar Barrett í Hæstarétt.
 • 15. október:
  Aðrar kappræðurnar fara fram í Miami í Flórída. Umræðustjóri er Steve Scully frá C-SPAN.
 • 22. október:
  Þriðju kappræðurnar fara fram í Nashville í Tennessee. Umræðustjóri er Kristen Welker frá NBC News.
  Repúblikanar gera ráð fyrir að greiða atkvæði um tilnefningu Barrett innan öldungadeildarinnar.
 • 2. nóvember:
  Dagurinn fyrir kjördag. Atkvæði frá kjósendum í tveimur fylkum þurfa að vera komin. Kjósendur í fimm fylkjum þurfa að setja atkvæði sín í póst.
 • 3. nóvember:
  Kjördagur í Bandaríkjunum. Allir þeir sem kjósa ekki utan kjörfundar geta kosið á kjörstað. Atkvæði frá kjósendum í 26 fylkjum þurfa að vera komin. Kjósendur í 18 fylkjum þurfa að setja atkvæði sín í póst.
 • 4. nóvember
  Atkvæði frá Texas þurfa að vera komin.
 • 6. nóvember:
  Atkvæði frá Norður-Karólínu, Georgíu, Pennsylvaníu, Kansas og Virginíu þurfa að vera komin.
 • 8. nóvember:
  Atkvæði frá Washington þurfa að vera komin.
 • 9. nóvember:
  Atkvæði frá Iowa, Vestur-Virginíu og Utah þurfa að vera komin.
 • 10. nóvember:
  Atkvæði frá Minnesota, New York og New Jersey þurfa að vera komin.
 • 13. nóvember:
  Atkvæði frá Ohio, Maryland, Washington D.C. og Alaska þurfa að vera komin.
 • 17. nóvember:
  Atkvæði frá Illinois þurfa að vera komin.
 • 20. nóvember:
  Atkvæði frá Kaliforníu þurfa að vera komin.
 • 20. janúar 2020:
  Forseti tekur við embætti.
Athugasemdir