Ekkert þeirra fimm sem sátu í yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis í síðustu þingkosningum, hefur greitt sekt sem lögreglustjórinn á Vesturlandi gerði þeim að greiða. Frestur til að ljúka málinu er löngu útrunninn.

Allar líkur eru á að mál fimmmenninganna í yfirkjörstjórninni fari fyrir dóm. Flestir meðlima yfirkjörstjórnar réðu sér lögmenn, sem óskuðu eftir fresti þegar sektarboðið barst.

Samkvæmt heimildum blaðsins verður ekki frekari frestur gefinn og styttist í að ákærur verði gefnar út. Gunnar Örn Jónsson, lögreglustjóri á Vesturlandi, sagðist ekki geta tjáð sig um málið á þessu stigi.

Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar, staðfestir að hann hafi ekki greitt sektina, sama eigi væntanlega við um hina í kjörstjórninni.

Inga var gert að greiða 250.000 krónur. Hinum var gert að ljúka málinu með 150.000 króna greiðslu. Sektarboðið byggir á að lög um meðferð kjörgagna hafi verið brotin, einkum hvað varðar innsigli.

„Ég hef ekki greitt þessa sekt vegna þess að ég tel ekki að ég eigi að greiða hana,“ segir Ingi Tryggvason.

Spurður um væntanlega saksókn, segist hann ekki óttast hana. „Ég sætti mig við niðurstöðuna, hver sem hún verður.“

Spurður hvort staða hans og ábyrgð sé meiri en hinna þar sem hann er héraðsdómari, svarar Ingi: „Ábyrgð mín í þessu máli er hvorki meiri né minni vegna þess að ég er dómari.“

Heimildir blaðsins herma að ríkissaksóknari hafi veitt ráðgjöf áður en sektarboðið var ákveðið