Ríkisráðsfundur hefur verið boðaður þann 6. september. Afar líklegt er talið að þar muni nýr dómsmálaráðherra verða formlega kynntur til leiks.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hefur gegnt embætti dómsmálaráðherra samhliða öðrum ráðherrastól sínum sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra síðan í mars. Hún tók þá tímabundið við dómsmálunum eftir að Sigríður Á. Andersen steig til hliðar vegna Landsréttarmálsins svokallaða. Þannig sagði Mannréttindadómstóll Evrópu Sigríði hafa gerst brotlega við mannréttindasáttmála Evrópu með dómaraskipun sinni í Landsrétt. Málinu hefur verið skotið áfram til efri deildar Mannréttindadómstólsins og er úrlausnar málsins enn beðið.

Sigríður steig til hliðar vegna Landsréttarmálsins síðasta mars.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lítið viljað gefa upp um hver taki við málaflokknum, en ýmsir kostir eru í stöðunni. Þingmennirnir Birgir Ármannsson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hafa verið sterklega orðuð við ráðherrastólinn. Birgir er formaður þingflokksins en Áslaug hefur verið áberandi innan flokksins síðustu ár og hefur þótt standa sig afar vel í formennsku nefnda sem hún hefur farið fyrir og ekki síst í hinu svokallaða orkupakkamáli. Nafni Brynjars Níelssonar hefur einnig verið fleygt sem mögulegum arftaka í stól dómsmálaráðherra, en Brynjar er reynslumikill lögmaður og starfaði sem slíkur áður en hann tók sæti á þingi.

Þá sagði Bjarni aðspurður á opnum fundi Sjálfstæðisflokksins, sem haldinn var þann 10. ágúst síðastliðinn, að Sigríður Á Andersen gæti átt afturkvæmt í ríkisstjórn. Ljóst þykir þó að slíkt gæti reynst erfitt áður en botn er fenginn í Landsréttarmálið í Strassborg.