Stytt hefur upp í veðurspám í Vestmannaeyjum fyrir helgina, en í gær greindi Fréttablaðið frá því að rigningu væri spáð um allt land.

Það er sól og heiðskírt í eyjum á föstudag samkvæmt spánni, og á hitinn að fara upp í ellefu stig.

„Það er svolítið leiðinlegt hvað það á að vera hvasst á föstudag,“ segir þó Marcel de Vries, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sem bendir á að spáð sé tíu metrum á sekúndu í Vestmannaeyjum. Auk þess segir hann að það sé útlit fyrir skúrum laugardag og sunnudag.

Eins og alþjóð veit fer verslunarmannahelgin fram nú um helgina, og verður Þjóðhátíð haldin í Vestmannaeyjum líkt og vanalega. Því má búast við að fjöldi fólks leggi leið sína til eyja.

Veðurspáin er svona þegar þessi frétt er skrifuð.
Fréttablaðið/Skjáskot
Svona var veðurspáin hins vegar í gær.
Fréttablaðið/Skjáskot