Nú þarf aðeins að bíða í fjóra mánuði eftir því að fá þriðja skammtinn af bóluefni. Frá þessu er greint í nýjum pistli Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, á covid.is en þar kemur fram að tími örvunarskammts bólusetningar gegn Covid-19 eftir skammt númer tvö hefur nú verið styttur í fjóra mánuði.

Áður þurfti fólk að bíða í fimm til sex mánuði frá því að það fékk annan skammt bóluefnis þar til það fékk þann þriðja. Samkvæmt sóttvarnalækni tekur þessi nýja tilhögun gildi frá og með 24. Janúar, sem er mánudagurinn í næstu viku, og verður auglýst nánar af heilsugæslunni.

Þá kemur fram að stefnt sé að því að einstaklingar verði kallaðir inn í bólusetninguna. Bólusett verður með bóluefni frá Moderna eða Pfizer en takmarkað magn af bóluefni Pfizer er nú til staðar í landinu.