Kjarasamningarnir sem verið er að undirrita í Karphúsinu eru byggðir þannig upp að lágtekjufólk hækki meira en aðrir.

Gert er ráð fyrir að þeir sem vinna eftir kauptöxtum, sem eru lágmarkstaxtar kjarasamninga, muni hækka um 90 þúsund krónur á mánuði á samningstímanum. Munu taxtar hækka um 17 þúsund frá 1. apríl síðastliðnum, um 24 þúsund 1. apríl 2020, 23 þúsund 1. janúar 2021 og 25 þúsund 1. janúar 2022.

Er samið um að upphafshækkun verði hófleg til að skapa skilyrði fyrir vaxtalækkun Seðlabankans.

Almennar launahækkanir munu nema 68 þúsund krónum á mánuði á samningstímanum. Munu laun hækka um 17 þúsund frá 1. apríl síðastliðnum, um 18 þúsund 1. apríl 2020, tæpar 16 þúsund 1. janúar 2021 og rúmar 17 þúsund 1. janúar 2022.

Einnig er að finna í samningnum sérstakt ákvæði sem tryggir launafólki hlut í hagvaxtaraukningu á mann sem Hagstofan birtir í mars á hverju ári.

Verði hagvöxtur á mann 1 prósent myndi það þýða þrjú þúsund króna launaauka á mánuði. Launaaukinn yrði átta þúsund krónur á mánuði miðað við tveggja prósenta hagvaxtaraukningu og þrettán þúsund miðað við þriggja prósenta vöxt.

Kemur þessi launaauki að fullu til hækkunar hjá þeim sem eru á strípuðum taxta en 75 prósent launaaukans koma ofan á almenn laun.

Þá er stytting vinnuvikunnar boðuð. Mun starfsfólk sjálft kjósa um það fyrirkomulag sem hentar á hverjum vinnustað en einnig verður hægt að hafa fyrirkomulagið óbreytt.

Fjórar útfærslur að styttingu vinnuvikunnar er að finna í samningnum. Í fyrsta lagi geta starfsmenn og vinnuveitendur komist að samkomulagi um að hver vinnudagur verði styttur um 53 mínútur.

Margar undirskriftir þarf til að ganga frá öllu.
Fréttablaðið/Ernir

Í öðru lagi getur samkomulag falið í sér að svigrúmið verði nýtt í lok vinnuviku þannig að starfsmenn ljúki störfum rétt fyrir hádegi á föstudögum. Það myndi þýða styttingu vinnuvikunnar um 212 mínútur.

Þriðji kosturinn felst í því að starfsmenn séu í fríi annan hvern föstudag og sá fjórði um hvíldarhlé sem verði útfærð á hverjum vinnustað eftir þörfum og aðstæðum.

Allir þessir valmöguleikar ganga út frá því að hádegishlé haldist óbreytt en kaffitímar verði aflagðir. Verður virkur vinnutími að jafnaði um 36 stundir á viku.

Ríkisstjórnin mun kynna svokallaðan lífskjarasamning nú strax í kjölfarið. Hann verður kynntur á blaðamannafundi klukkan í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu, þegar undirritun er lokið í Karphúsinu.