Svokallaður borgarafundur verður haldinn í Iðnó næstkomandi sunnudag, 18. ágúst á vegum Lýðræðisflokksins. Viðburðuinn er skipulagður sem umræðuvettvangur og ber yfirskriftina Er Ísland til sölu - er lýðræðið í hættu?

Þeir sem munu koma fram á fundinum eru fjölbreyttur hópur úr ólíkum áttum samfélagsins.

Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins mun flytja tölu, Aldís Schram, lögfræðingur og kennari mun flytja ljóð, Erpur Eyvindarson, eða Blaz Roca, tekur lagið og Kristinn Sigurjónsson, rafmagnsverkfræðingur, ætlar að fjalla fræðilega um raforkumál Íslendinga. Einnig talar Albert Svan, pírati um lífeyrissjóðina og Eva Ísfold Lind, upplýsingaaktívisti, stígur á svið og gerir tjáningarfrelsinu skil.

„Það eru margir skráðir í aðra flokka sem koma fram og við erum mjög umburðarlynd og opin fyrir því,“ segir Benedikt Lafleur sem stendur fyrir viðburðinum. Hann segir ekki liggja fyrir hvort Lýðræðisflokkurinn stefni á að taka þátt í næstu sveitastjórnarkosningum.

„Við viljum fyrst og fremst hafa áhrif á umræðuna og ef það verður til þess að breyta stjórnmálunum eitthvað og jafnvel laga starfið í flokkunum þá er ekki endilega þörf á því að fara í framboð. En eins og þróunin hefur verið þá virðist forystan ekki hlusta á félagsmenn sinna flokka. Það er alveg sama hvaða flokk um ræðir. Þetta er alveg hróplegt, mismunurinn milli þess sem forstumenn segja og félagsmenn segja,“ segir Benedikt.