Sjúkratryggingar Íslands tilkynntu á dögunum um breytingar á reglugerð um styrki til kaupa á næringarefnum og sérfæði nr. 55/2009 sem gefin er út af Heilbrigðisráðuneytinu, sem fela m.a. í sér að ákvæði um styrkveitingu til kaupa á glútensnauðu sérfæði fellur á brott.

Fellt var úr gildi ákvæði í reglugerð, sem sett var inn 2013, sem kveður á um að Sjúkratryggingar Íslands niðurgreiddu glútenlaust sérfæði fyrir börn að 18 ára aldri, 70% á grundvelli innkaupaheimildar, að hámarki 14.000 kr. á mánuði.

Að sögn Júlíönu H. Aspelund, deildarstjóra hjá Sjúkratryggingum Íslands, voru ekki margir með þessa heimild eða um 35 manns. Flestir styrkir voru undir 5.000 krónum á mánuði. Þessar vörur séu orðnar almennari og fáist orðið í flestum lágvöruverslunum.