Árleg úthlutun úr Sviðslistasjóði, verkefnasjóði sjálfstætt starfandi sviðslistamanna, fór fram í síðustu viku. Alls bárust 149 umsóknir og var sótt um rúmlega 891 milljón og 1.789 mánuði til listamannalauna. Aðeins 23 sviðslistahópar fengu þó styrk og var 160 milljónum króna úthlutað og 170 mánuðum til listamannalauna auk 20 mánaða til einstaklinga.

Mikil umræða hefur skapast um úthlutunina hjá sjálfstætt starfandi sviðslistamönnum sem margir hverjir eru ekki par sáttir við fyrirkomulag styrkjakerfisins. Eva Rún Snorradóttir, rithöfundur og sviðslistamaður, skrifaði til að mynda á umræðuhóp Sjálfstæðu leikhúsanna á Facebook:

„Þetta kerfi er alveg hel þrotað. Ótrúlegt að það sé bara pláss fyrir örfáa undir sama hatti. Glórulaust alveg. Það hefur verið skýrt og verður skýrara með hverju árinu að það er ekki grundvöllur fyrir fagstarfsvettvang í sviðslistum. Það verður að gjörbreyta þessu kerfi.“

Kröfur fallið á dauf eyru

Orri Huginn Ágústsson, formaður Sjálfstæðu leikhúsanna og sviðslistamaður, segir kollega sína hafa krafist breytinga lengi en talað fyrir daufum eyrum ráðamanna.

„Það gætir óánægju með fyrirkomulagið og hefur gert um þó nokkra hríð. Það hefur staðið til að fara ofan í kerfið í ráðuneytinu, það stóð til í ráðherratíð Lilju í mennta- og menningarmálaráðuneyti og stendur held ég enn þá til í nýju menningarráðuneyti en er auðvitað svolítið þungt og flókið.“

Að sögn Orra hefur sjálfstæða sviðslistasenan vaxið mikið undanfarin ár en framlög ríkisins endurspegla þessa grósku þó alls ekki. Að meðaltali fara einungis átta prósent af heildarfjármagni til sviðslista í sjálfstæðar sviðslistir en restin til stofnanaleikhúsa á borð við Þjóðleikhúsið. Þrátt fyrir þetta bera sjálfstæðir sviðslistahópar yfirleitt ábyrgð á um 55-60 prósentum frumsýninga hvers leikárs.

Orri segir þetta skjóta skökku við en ítrekar þó að sjálfstætt starfandi sviðslistamenn séu ekki að biðja um það að peningar verði teknir frá Þjóðleikhúsinu og færðir til þeirra. Að sögn hans hafa fagfélögin lengi barist fyrir umbyltingu á íslenska styrkjakerfinu.

„Við þurfum mun öflugri Sviðslistasjóð, sjóð sem er rekinn þá helst að fyrirmynd Kvikmyndasjóðs og hefur opið fyrir umsóknir allt árið og er burðugri og öflugri að stærð en sjóðurinn er núna,“ segir Orri.

Afleiðing núverandi kerfis sé að sjálfstætt starfandi sviðslistamenn, sem eiga margir hverjir langan feril að baki, geta ekki helgað sig starfinu og neyðast til að sinna listinni í hjáverkum. Þetta sé enn meira sláandi þegar litið er til þess mikla fjölda sem starfar við greinina en Sjálfstæðu leikhúsin áætla að á bilinu 7-800 manns starfi við sviðslistir að einhverju ráði.

Litið til Norðurlanda

„En enginn í fullu starfi, eðli málsins samkvæmt, þegar þú getur í besta lagi vonast eftir fjármögnun til þess að styrkja tiltekið verkefni sem tekur til skamms tíma og átt allt þitt undir að sækja þetta umboð einu sinni á ári. Fáirðu það ekki þá þarftu að bíða í heilt ár,“ segir Orri.

Margir líta því löngunaraugum til Norðurlandanna og annarra Evrópulanda þar sem sjálfstæðir sviðslistahópar geta fengið starfsstyrki til allt að fimm ára í senn.