Flugskeytin sem rötuðu inn fyrir landamæri Póllands á dögunum og urðu þar tveimur að bana, hafa vakið áhyggjur af öryggi loftrýmisins yfir austurhluta Evrópu.

Spænska stórblaðið El País segir frá því að NATO-þjóðir í austurhlutanum hafi hert viðleitni sína til að styrkja loftvarnir sínar, til að hindra slíka atburði á meðan stríðið í Úkraínu stendur yfir.

Þjóðverjar hafa boðið Pólverjum varnarkerfi sem þeir eiga í fórum sínum til vara og byggja á bandarískum Patriot-loftvarnaflaugum, auk þess sem þeir vakta loftrýmið með orrustuþotum.

Pólverjar þáðu boðið strax með þökkum, en þegar fréttir bárust af árásum Rússa síðdegis í fyrradag á innviði í Úkraínu, lagði varnarmálaráðherra Póllands, Mariusz Blaszczak, til að Patriots-flaugunum yrði frekar komið til Úkraínumanna.

„Það myndi vernda Úkraínu frá frekara mannfalli og straumrofi og tryggja landamæri okkar til austurs,“ sagði Blaszczak á Twitter. El País bendir á að slík ráðstöfun þurfi bæði samþykki Þjóðverja, sem eiga umræddar flaugar og Bandaríkjanna, þar sem flaugarnar eru framleiddar.

El País segir að Evrópulöndin sem eigi landamæri að Rússlandi og hafi árum saman varað við hættunni af útþenslu- og heimsvaldastefnu Rússa, séu í hæstu viðbragðsstöðu.

Pólland og Eystrasaltslöndin verji nú þegar dágóðum hluta þjóðartekna sinna til varnarmála og í Eistlandi, til að mynda, sé rætt um að auka framlögin enn frekar í þennan málaflokk.

Atvikið í Póllandi hefur að sögn El País sett af stað viðvörunarbjöllur í Litáen, sem verið hafi meðlimur í NATO frá árinu 2004. Litáar vilja styrkja loftvarnir sínar eins fljótt og auðið sé. Þjóðaröryggisráð Litáen hafi samþykkt á mánudaginn að flýta kaupum á meðaldrægum gagnflaugum.

Haft er eftir ráðgjafa Gitanas Nauseda, forseta Litáens, að þetta sé forgangsmál til að tryggja öryggi, áður en toppfundur NATO fer fram í höfuðborginni Vilníus á næsta ári.

Þjóðverjar hafa hrundið af stað verkefni sem ætlað er að skapa skjöld til að vernda loftrýmið yfir Evrópu. Fimmtán ríki eiga þegar aðild að verkefninu, sem felur í sér samhæfðar loftvarnir í samstarfi við NATO, til að bregðast við ógninni af Rússum.

Pólverjar eiga ekki aðild að þessu verkefni en El País segir að líkur á þátttöku þeirra hafi aukist með fyrrnefndu samstarfi þeirra við Þjóðverja í kjölfar atviksins með flugskeytin sem sprungu á pólskri grundu.

Þótt löndin næst Rússlandi hafi fengið endurnýjaðan áhuga á loftvörnum sínum, bendir El País á að loftvarnabúnaður sem hafi verið til reiðu hafi að talsverðu leyti þegar verið sendur til Úkraínu. Afar takmarkað sé hvað standi til boða í þessum efnum. Slóvakar hafi til að mynda sent Úkraínu rússneskar S-300 loftvarnaflaugar og með því skilið eftir ákveðið gat í eigin vörnum. Svipað eigi við um önnur lönd.