Vaxtahækkun Seðlabankans í gær hefur áhrif á útlánsvexti banka og annarra lánastofnana. Stýrivextir hafa nú hækkað ellefu sinnum í röð og greiðslubyrði húsnæðislána hefur aukist stórum. Samt hefur dregið nokkuð úr muninum á stýrivöxtum og húsnæðisvöxtum.
Áður en vaxtahækkunarferli Seðlabankans hófst í maí 2021 voru stýrivextir bankans 0,75 prósent en algengir vextir á húsnæðislánum með breytilegum vöxtum voru 3,44 prósent.
Fyrsta hækkun Seðlabankans var 0,25 prósentur, upp í 1,00 prósent, og vextir húsnæðislána hækkuðu um 0,10 prósentur, upp í 3,54 prósent. Einungis 2/5 hlutar stýrivaxtahækkunarinnar runnu inn í útlánavexti bankanna.
Næsta hækkun, í ágúst 2021, var líka 0,25 prósentur, upp í 1,25 prósent. Þá hækkuðu vextir húsnæðislána um 0,20 prósentur, upp í 3,74 prósent.
Aftur hækkuðu stýrivextir í október 2021 um 0,25 prósentur, upp í 1,50 prósent. Vextir húsnæðislána hækkuðu þá um 0,15 prósentur, upp í 2,89 prósent. Í nóvember hækkuðu stýrivextir aftur, nú um 0,5 prósentur, og vextir húsnæðislána um 0,4 prósentur.
Bankarnir hleyptu ekki stýrivaxtahækkunum Seðlabankans að fullu út í útlánavexti sína fyrr en í júní á síðasta ári, þegar stýrivextir hækkuðu úr 3,75 prósentum í 4,75 prósent og vextir húsnæðislána fylgdu í kjölfarið, hækkuðu úr 5,49 prósentum í 6,59 prósent.
Síðan þá hefur hver einasta vaxtahækkun Seðlabankans ratað beint inn í útlánavexti bankanna og fyrir hækkunina í gær voru vextir húsnæðislána 7,84 prósent. Þar sem stýrivextir hækkuðu um 0,5 prósentur er ekki óvarlegt að ætla að vextir á húsnæðislánum hækki brátt úr 7,84 prósentum í 8,34 prósent.
Hjá Arion banka fengust í gær þær upplýsingar að samkvæmt reynslu bankans séu 90 prósent nýrra íbúðalána jafngreiðslulán eða svonefnd annuitetslán. Sé horft einhver ár aftur í tímann sé um þriðjungur umsókna um óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum, þriðjungur um óverðtryggð lán með föstum vöxtum, tíundi hluti um verðtryggð lán með breytilegum vöxtum og fimmtungur um verðtryggð lán með föstum vöxtum.
Ef við skoðum hvernig greiðslubyrði óverðtryggðra húsnæðislána hefur breyst frá því að vaxtahækkunarferli Seðlabankans hófst fyrir 21 mánuði sést að mánaðarleg greiðslubyrði 25 milljóna jafngreiðsluláns til 25 ára hefur farið úr ríflega 124 þúsund krónum í tæplega 199 þúsund krónur, eða um 75 þúsund krónur á mánuði – 900 þúsund á ári.
Ef skoðað er lán með jöfnum afborgunum sést að mánaðarleg greiðslubyrði hefur hækkað úr 155 þúsund krónum í maí 2021 í röskar 257 þúsund krónur, eða um 102 þúsund krónur á mánuði – 1.224 þúsund á ári.
Þessar tölur tvöfaldast ef skoðað er 50 milljón króna lán með sömu skilmálum. Lán af þessum stærðargráðum eru ekki óalgeng hjá heimilum sem nýlega hafa fest kaup á húsnæði.