Kalla þurfti á björgunarlið þegar stýribúnaður 15 tonna línubáts frá Bolungarvík bilaði á sjöunda tímanum norður af Hornströndum í dag. Engin slys urðu á fólki.

Gísli Jóns til bjargar

Björgunarskipið Gísli Jóns frá Ísafirði lagði úr höfn upp úr sjö og sigldi að skipinu. Áhöfnin átti erfitt með að stýra bátnum en sigldi þó til móts við Gísla Jóns. Bátarnir mættust klukkan hálf níu í Aðalvík en Gísli Jóns er nú á leið til Bolungarvíkur með línubátinn í eftirdragi.