Stykkishólmsbær hefur stefnt Sæferðum ehf. vegna áreksturs ferjunnar Baldurs á bryggjuna í nóvember árið 2016. Sæferðir, sem eru í eigu Eimskips og njóta styrkja frá Vegagerðinni til að halda úti ferjusiglingum yfir Breiðafjörð, telja kröfuna fyrnda.

Baldur sigldi á ferjubryggjuna, eða svokallaða Baldursbryggju, þann 13. nóvember árið 2016. „Á ferjunni er kragandi festing fyrir landgang sem krækist í fendernum og reif hann, skipið braut einnig klæðningu og bita sem fenderinn er festur við,“ segir í minnisblaði Vegagerðarinnar um áreksturinn. Hafi ferjan í nokkur önnur skipti rekist í bryggjuna og nú sé fenderinn ónýtur og burðarbitar aftan við hann einnig.

„Ótvírætt er að það hefur verið stórkostlegt gáleysi að sigla á bryggjuna þar sem veðrið var ekki vont,“ segir í stefnunni. En samkvæmt Veðurstofunni var vindur 12 metrar á sekúndu og 18 í kviðum þann dag sem áreksturinn varð.

Í skýrslu lögreglunnar kemur fram að skipstjóri Baldurs hafi átt erfitt með að stjórna ferjunni í sterkri suðvestanátt. Ferjan hafi komið full harkalega að bryggjunni með þeim afleiðingum að festi fyrir landgang á bakborðssíðu hafi lent í fendernum og brotið hann.

Eins og áður segir hefur málið tekið nokkurn tíma og viðgerðir hafa enn ekki verið gerðar á bryggjunni. Sæferðir hafa hins vegar látið útbúa fendera, eða svokallaðar þybbur, og komu tvær þeirra til Stykkishólms í desember í fyrra. Ágreiningurinn kom hins vegar upp síðastliðið vor.

Í maí sendi bærinn fyrirspurn á Sæferðir um hvernig fyrirtækið vildi fá reikninginn. Samkvæmt minnisblaði Vegagerðarinnar hljóða viðgerðirnar upp á að minnsta kosti 4,28 milljónir króna. Endanleg fjárhæð liggi þó ekki fyrir þar sem viðgerðir þurfa að gerast undir sjávarmáli og óvissuþættir spili inn í.

Sæferðir svöruðu samdægurs og töldu sig hafa bætt tjónið með þybbunum. Aldrei hefði fyrirtækið séð greinargerð Vegagerðarinnar. Í október sendi Stykkishólmur innheimtuaðvörun á Sæferðir sem höfnuðu bótaskyldunni í kjölfarið og töldu málið fyrnt á grundvelli ákvæða siglingalaga um þriggja ára fyrningarfrest.

Stykkishólmur telur kröfuna hins vegar ekki fyrnda. Fyrningarfrestur skaðabóta sé fjögur ár og reiknist frá minnisblaðinu. Með því að afhenda þybburnar hafi Sæferðir viðurkennt bótaábyrgð sína og fyrningunni þar með verið slitið. Hafi bærinn talið að Sæferðir myndu greiða fyrir viðgerðirnar en að Sæferðir hafi „umpólast í afstöðu sinni“ í vor.

Árekstur Baldurs er ekki sá eini sem Stykkishólmur hefur þurft að kljást við á undanförnum árum. Sumarið 2018 klessti erlent skemmtiferðaskip á hafskipabryggjuna og var tjónið þar metið á 17 milljónir króna. Samkvæmt Pétri Kristinssyni, lögmanni bæjarins, hefur náðst sátt um það mál en hann vildi ekki tjá sig um málin að öðru leyti.