Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist ekki hafa skipt um skoðun um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Sömuleiðis sé það enn áherslumál hjá Vinstri hreyfingunni grænu framboði að Ísland segi sig úr NATO.

„Hæstvirtur forsætisráðherra hefur nú formlega lýst yfir stuðningi við aðild Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu, NATO. En styður hæstvirtur forsætisráðherra þá aðild Íslands að NATO?“ spurði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður og þingmaður Miðflokksins, í óundirbúnum fyrirspurnum á þingfundi í dag.

Atlantshafsbandalaginu var komið á fót með Atlantshafssáttmálanum sem undirritaður var í Washington 4. apríl 1949 og var Ísland eitt tólf stofnríkja þess.

Forsætisráðherra þakkaði þingmanninum fyrir stutta og skýra spurningu og var sjálf skorinorð í svari.

„Ég styð þá lýðræðislegu niðurstöðu sem þjóðþing Finnlands og Svíþjóðar hafa komist að varðandi það að sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu. Sem forsætisráðherra þá starfa samkvæmt samþykktri þjóðaröryggisstefnu þar sem kveðið er á um aðild Íslands að NATO en mín hreyfing og ég þar með talinn, höfum ekki skipt um skoðun á þeirri aðild,“ svaraði Katrín.

Spurði þá Sigmundur hvort Katrín teldi ekki tímabært að lýsa yfir stuðningi við aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu í ljósi aðstæðna. Katrín svaraði neitandi, hún teldi ekki ástæðua til að kalla á breytingar á innra starfi Vinstri grænna þrátt fyrir að hún sem forsætisráðherra virti samþykkta þjóðaröryggisstefnu.

Atlantshafsbandalaginu var komið á fót með Atlantshafssáttmálanum sem undirritaður var í Washington 4. apríl 1949 og var Ísland eitt tólf stofnríkja þess.  Auk aðildar að bandalaginu, er varnarsamningur Íslands við Bandaríkin frá 1951 ein meginstoð Íslands í öryggis- og varnarmálum, eins og fram kemur í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem samþykkt var 2016.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, gagnrýndi Vinstri græna fyrir ósamræmi í stefnu og framkvæmd í grein í morgnblaðinu árið 2011. Þannig hafi flokkurinn löngum haft úrsögn úr NATO á stefnuskrá en setið í ríkisstjórn á sama tíma og NATO gerði loftárásir á Líbyu árið 2011 og þannig borið pólitíska ábyrgð á þeim.