Fólkið sem stofnaði og stjórnar Facebook-síðunni Takk Bára hefur boðað til mótmælafundar við Alþingishúsið á Austurvelli klukkan 14 á sunnudaginn. Rannveig Ernudóttir segir í samtali við Fréttablaðið að mótmælin séu viðbragð við endurkomu Miðflokksþingmannanna Gunnars Braga Sveinssonar og Bergþórs Ólasonar á þing í gær.

„Ég held að allir hafi nú átt von á því að þeir myndu nú akkúrat gera þetta en samt haldið einhvern veginn í þá von að þeir myndu kannski sýna örlítinn vott af virðingu fyrir Alþingi. Nógu lélegt er nú álit Íslendinga á því fyrir en þeir eru bara uppteknir af eigin ágæti og eru bara fórnarlömb,“ segir Rannveig sem stofnaði Facebook-síðuna strax eftir að hún frétti af því að fjórmenningar Miðflokksins sem koma við sögu á Klaustursupptökum Báru Halldórsdóttur ákváðu að stefna henni fyrir dóm.

Sjá einnig: Þrettán þúsund hafa þakkað Báru á sólarhring

„Þannig að við segjum bara hingað og ekki lengra. Þetta gengur ekki. Fyrirvarinn er stuttur en við erum að smala saman fólki til þess að halda stuttar ræður og svona vegna þess að við viljum ekki hafa þetta mjög langt. Það er janúar á Íslandi og veturinn kom loksins. Þetta verður svona klukkutíma langur viðburður og svo sjáum við bara hvað kemur út úr því og hvort við komum aftur og aftur og aftur þangað til það er búið að sópa þessu út,“ segir Rannveig.

„Þetta tengist Báru ekki beint þótt við í Takk Bára-hópnum stöndum fyrir þessu. Núna viljum við svolítið setja fókusinn á að þarna eru einstaklingar að spila sig sem þolendur en eru gerendur. Stuðningurinn er til staðar fyrir Báru og það er frábært en nú erum við að taka þennan vinkil.“

Stuðninghópur Báru á Facebook telur nú um 13.000 manns og þar er boðað til mótmælanna með þessum orðum: „Nú er komið nóg, við segjum nei, hingað og ekki lengra. Siðleysi þingmanna er ekki liðið, spillingin er ekki liðin! Sýnið a.m.k. örlitla virðingu fyrir Alþingi Íslendinga og hypjið ykkur af þingi!“