„Ég er 120 kíló og flestir lýsa mér sem magamiklum einstakling. Það bjargaði mér,“ segir Benedikt Jónasson, sem stunginn var í þrígang í kviðinn fyrir utan Krónuna í Grafarholti fyrir viku. Í tilkynningu frá lögreglu í kjölfar árásarinnar kom fram að þrír menn væru í haldi, á tvítugs og fertugsaldri. Fram kom að bílar væru að staðnum sem tengdust málinu. 

Benedikt, sem er öryrki, segist hafa fengið flog í kjölfar árásarinnar og furðar sig á því að lögreglan hafi fært hann í járn á meðan. Lögmaður Benedikts staðfestir að Benedikt hafi verið stunginn í kviðinn, settur í handjárn og að hann hafi fengið flogakast. Þá sé hann með brotnar tennur.

Benedikt segir að hann hafi ásamt félaga sínum verið í bíl sem lagt var við Krónuna í Grafarholti 31. ágúst. Félagi hans hafi farið inn í verslunina en sjálfur hafi hann farið út úr bílnum í því skyni að fara í hraðbanka sem er í grenndinni. Hann hafi skammt frá bílnum tekið upp veskið, þar sem hann geymdi peninga og kort. Þegar hann hafi litið upp hafi ungur maður staðið mjög nærri. „Hann stendur óþægilega nærri mér. Ég set veskið í vasann og sný mér við,“ segir Benedikt um viðbrögð sín. Þá hafi hann sé að annar ungur maður hafi staðið í vegi fyrir honum, á milli bílanna. Þegar hann hafi snúið sér aftur við hafi hann verið „kýldur“ í kviðinn í þrígang.

Benedikt segist vera mjög flogaveikur. Hann hafi í kjölfar atlögunnar fallið niður á hnén og gripið um kviðinn en séð að hann varð við það blóðugur á höndunum. Þá hafi runnið upp fyrir honum að hann hafi verið stunginn. „Ég sá aldrei hnífinn,“ segir hann. Benedikt segist í kjölfarið hafa fengið flogakast og muni lítið fyrr en á sjúkrahúsið var komið. Honum hafi hins vegar verið sagt af vitnum að hann hafi verið handjárnaður og að höfuð hans hafi skollið á steyptu undirlagi við þær aðfarir lögreglunnar. Á sjúkrahúsinu hafi hann tekið eftir því að hann var sár á vörunum og með tvær brotnar tennur. Félagi hans, sem kom honum til aðstoðar skömmu eftir árásina, hafi líka verið handtekinn, þegar hann hafi verið að hlúa að honum.

Benedikt segir að árásarmennirnir hafi hirt af honum veskið, sem hann hefur ekki séð síðan.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að aðilum málsins greini á um aðdraganda árásarinnar. Lögreglan sendi frá sér tilkynningu skömmu eftir atvikið, þar sem fram kom að ágreiningur hafi skapast vegna bílastæðis. Benedikt segist furða sig á slíkum fréttum og segist engin samskipti hafa átt við mennina ungu áður en til árásarinnar hafi komið. „Ég á enga óvildarmenn,“ segir Benedikt, spurður hvort hann viti til þess að einhver hafi viljað gera honum mein. 

Hann segist að fyrra bragði ekki vera „merkilegur pappír“ en að honum sé mikið í mun að segja frá sinni hlið mála. Hann hafi ekkert gert sem réttlætt geti svona árás. „Ég man ekki eftir að hafa haft nein orðaskipti við þá.“

Benedikt segist hafa fengið tvo djúpa skurði í kviðarholið, eins og sjá má á myndinni sem fylgir greininni, en segir að hann hafi verið í sterkri vinnuúlpu auk þess að hafa aukakíló um sig miðjan. Það hafi komið í veg fyrir að lífhimnan hafi rofnað og líffæri skemmst. Þriðja stungan hafi farið í bringubeinið. Hann segist vera á hægum batavegi en að slæm sýking sé komin í annað sárið neðarlega á kviðarholinu. „Þarmarnir sluppu,“ segir Benedikt.

Hann lítur á árásina sem tilraun til manndráps og er að undirbúa kæru, bæði á gagnvart þeim sem réðust á hann og líka á hendur lögreglu. Hann segir ótækt með öllu að lögregla hafi handtekið mann með blæðandi stungusár á kviðarholi og í flogakasti. Þá fullyrðir hann að tennur hafi brotnað við handtökuna. Lögmaður Benedikts, Snorri Sturluson, staðfestir við Fréttablaðið að hann sé að skoða réttarstöðu Benedikts.

Fréttablaðið leitaði upplýsinga um málið hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þar fengust engar upplýsingar um málið aðrar en þær að málið væri til rannsóknar.