Móa var um sex ára þegar píanó kom inn á æsku­heimilið og segist hrein­lega hafa horfið inn í það. „Það var for­ljótt en nóturnar úr fíla­beini, harpan Steinway og hljóðið magnað. Ég gat setið við það tímunum saman og prófað mig á­fram.“

Það var svo árið 1990 að Móa prófaði í fyrsta sinn að opna á annað hljóð­færi sem svo átti eftir að verða hennar aðals­merki, röddina. Þá keppti hún fyrir hönd Mennta­skólans í Reykja­vík í Söng­keppni fram­halds­skólana sem þá var haldin í fyrsta sinn.

„Ég hafði aldrei sungið neitt en fann að ég varð að gera þetta. Ég efaðist aldrei um að geta sungið með alla þessa söngvara í kringum mann. En ég sagði ekki einu sinni fjöl­skyldunni að ég væri að taka þátt – þau bara sáu mig í sjón­varpinu.“

Þessi fyrsta Söng­keppni fram­halds­skólana er kannski ekki síst eftir­minni­leg fyrir það hverjir hrepptu annað og þriðja sætið. Mó­eiður Júníus­dóttir og Páll Óskar Hjálm­týs­son, tón­listar­fólk sem átti sannar­lega eftir að láta að sér kveða næstu árin komu þarna þétt á eftir sigur­vegaranum, Lárusi Inga Magnús­syni, sem minna hefur heyrst í.

„Þetta er lexía um að það skiptir ekki öllu að vinna heldur hvernig þú nýtir tæki­færi þín,“ segir Móa en viður­kennir þó að hún hafi tekið tapið nærri sér.

„Stundum hefur maður gott af því að fá ekki allt upp í hendurnar. Þarna kynnumst við Páll óskar enda bæði sér­vitrir ung­lingar að hlusta á djass, blús og söng­leikja­tón­list,“ segir Móa en bak­sviðs stofnuðu þau djass­band og spiluðu víða.