Fólk fjölmennti í Ljósagöngu UN Women á Íslandi á Arnarhóli í gær þar sem „Kona, líf, frelsi,“ heyrðist hrópað en það er yfirskrift göngunnar í ár.

María Rut Kristinsdóttir, kynningarstýra UN Women á Íslandi, segir stundina í gær hafa verið tilfinningaþrungna. Undirtónninn hafi verið alvarlegur en að venju markaði viðburðurinn upphaf sextán daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi. Þetta er fyrsta gangan í tvö ár sökum kórónuveirufaraldursins.

Konur, líf, frelsi er yfirskrift göngunnar í ár en það er jafnframt slagorð mótmæla sem hafa staðið yfir í Íran í meira en tvo mánuði.

Frá göngunni í gær.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Zahra Mesbah frá Afganistan og Zoreh Aria frá Íran leiddu gönguna ásamt Stellu Samúelsdóttur, framkvæmdastýru UN Women á Íslandi. Auk þeirra gengu fleiri einstaklingar frá Afganistan og Íran fremst í göngunni. Eliza Reid, forsetafrú Íslands, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra létu sig ekki vanta í gær.

Zahra Mesbah, sem er afgönsk að uppruna en fædd í Íran, hélt ræðu og lagði áherslu á sameiningu í stað sundrungar. Þjóðerni, trú, eða aðrir þættir eigi ekki að skipta máli. „Það eina sem máli skiptir er að ég er manneskja, og allar manneskjur eiga skilið frelsi og að lifa með reisn,“ sagði hún meðal annars. Zahra hefur vakið athygli hér á landi fyrir röska framgöngu þegar kemur að því að vekja athygli á stöðu mála í heimalöndum sínum.

Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Zoreh Aria brýndi fyrir viðstöddum um nauðsyn þess að sýna írönskum konum stuðning í baráttu sinni fyrir frelsi.

„Stúlkur hætta lífi sínu til að mótmæla á götum úti á hverjum degi. Þær standa tómhentar andspænis byssukúlum og táragasi. Í þeirra huga er þetta einstefna og engin leið til baka, því það er ekkert til að snúa aftur til. Þær berjast fyrir frelsi og reisn.

Við biðjum fólk um að standa með friði, frelsi og írönsku þjóðinni og að það biðji stjórnvöld um að grípa til aðgerða,“ sagði Zoreh meðal annars í ræðu sinni.

Hið alþjóðlega sextán daga átak gegn kynbundnu ofbeldi beinir kastljósinu í ár að kvenmorðum (e. femicide).

Samkvæmt tölum frá UN Women voru 81.100 konur um allan heim myrtar árið 2021, 58 prósent þeirra voru myrtar af maka eða fjölskyldumeðlimi. Þetta samsvarar því að kona sé myrt á heimili sínu á 11 mínútna fresti.

Frá Ljósagöngu UN Women á Íslandi sem fór fram í gær.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason
Fréttablaðið/Eyþór Árnason
Fréttablaðið/Eyþór Árnason
Fréttablaðið/Eyþór Árnason