Tvö mál komu upp á Suðurnesjum um helgina þar sem stúlkur misstu meðvitund eftir að hafa borðað heimatilbúna gúmmíbangsa sem innihéldu kannabisefni og morfín.

Sigvaldi Lárusson, aðalvarðsstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir að málið sé enn í rannsókn og ekki er vitað hvaðan gúmmíbangsarnir koma eða hver bjó þá til.

„Talið var í fyrstu að um veikindi væri að ræða en við sýnatöku kom í ljós að þær höfðu innbyrt kannabisefni og morfín. Rannsókn leiddi til þess að stúlkurnar voru á sama stað fyrr um kvöldið og var þeim báðum boðið að fá sér hlaup. Ómeðvitaðar hvað væri í hlaupinu þá fengu þær sér og enduðu þær báðar á sjúkrahúsi,“ segir Sigvaldi.

Rannsókn leiddi í ljós að stúlkurnar höfðu fengið þetta hjá öðrum táningi undir lögaldri sem hafði sjálfur keypt þetta af sér eldri manni. Rannsókanrlögregla yfirheyrði táninginn.

Sigvaldi hefur ekki séð slíkt áður í umdæminu. „Ég hef ekki séð þetta hér, en þetta er svipað og með veipið. Þetta er bara búið til einhvers staðar, hreinlætissöðlum er ekki framfylgt og það er hægt að setja hvað sem er í þetta. Hvort sem það er rottueitur eða contalgin.

Upphaflega er þetta búið til sem kannabishlaup sem fólk notar til neyslu, en ég sé fyrir mér að það sé hægt að setja hvað sem er í þetta sem dæmi nauðgunarlyf.

Ég setti því umræðuna í gang til þess að foreldrar geti verið meðvitaðir um hættuna og verið vakandi yfir því ef börn eru farnir að kaupa heimatilbúið hlaup,“ segir Sigvaldi.

Foreldrar barnanna ásamt barnavernd vinna nú að því í sameiningu að aðstoða börn sín varðandi þessa reynslu.