Ein þekktasta for­síðu­mynd National Geo­grap­hic-tíma­ritsins birtist árið 1984 og sýnir af­ganska stúlku með fagur­græn augu. Stúlkan á myndinni, Sharbat Gulla, er í dag 49 ára.

AP-frétta­stofan greinir frá því að Sharbat sé nú komin til Ítalíu í kjöl­far valda­töku talí­bana í Afgan­istan. Skrif­stofa Mario Draghi, for­sætis­ráð­herra Ítalíu, stað­festi þetta í gær. Sharbat sóttist eftir að­stoð frá Ítalíu og urðu yfir­völd þar við þeirri beiðni.

And­lit Sharbat varð í raun heims­frægt á einni nóttu árið 1984. Stríðs­frétta­ljós­myndarinn Ste­ve McCurry tók myndina en fimm árum áður höfðu Sovét­menn ráðist inn í Afgan­istan. Leiðir Ste­ve og Sharbat lágu svo aftur saman árið 2002.

Sharbat kom sé fyrir í Pakistan en var vísað úr landi árið 2014 vegna gruns um að hafa komið til landsins á fölsuðum skil­ríkjum. Hún fékk höfðing­legar mót­tökur þegar hún sneri til baka til Afgan­istan það ár og fékk meðal annars íbúð að gjöf frá for­seta landsins.