Myndar­stúlka kom í heiminn í bíla­sal slökkvi­liðsins í Skógar­hlíð í gær­kvöldi. Móður og barni heilsast vel en for­eldrarnir sáu ekki fram á að ná á fæðingar­deildina í tæka tíð.

Sagt er frá þessu skemmti­lega at­viki á Face­book-síðu Slökkvi­liðsins á höfuð­borgar­svæðinu.

Þar segir að for­eldrarnir hafi verið í sam­bandi við ljós­móður sem ráð­lagði þeim að fara á slökkvi­stöðina í Skógar­hlíð þar sem þau sáu ekki fram á að komast á fæðingar­deildina áður en barnið fæddist.

„Ljós­móðir gerði Neyðar­línu og slökkvi­liði við­vart um komu þeirra og tóku slökkvi­liðs­menn á móti þeim í bíla­sal slökkvi­liðsins. Þar var móðir að­stoðuð úr heimilis­bílnum og í sjúkra­börur, þegar verið var að setja þær í sjúkra­bíl gerðust hlutirnir hratt og 2 mínútum síðar fæddist myndar­stúlka í sjúkra­bílnum inni á slökkvi­stöðinni á slaginu kl 20:00.“
Að því er fram kemur í færslu slökkvi­liðsins heilsast móður og barni vel en fjöl­skyldan var svo flutt á fæðingar­deildina og heimilis­bíllinn ferjaður með.

Að sögn slökkvi­liðsins hefur síðasti sólar­hringur verið mjög anna­samur og voru farnir 112 sjúkra­flutningar, þar af 25 neyðar­flutningar, 12 flutningar vegna CO­VID-19 og þá fóru dælu­bílar í tvö út­köll.

Fæddist í bílasal slökkviliðsins. Foreldrar á leið á fæðingardeildina sáu fram á að ná ekki í tæka tíð, voru þeir í...

Posted by Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs. on Föstudagur, 25. september 2020