Önnur umræða um lagafrumvarp um stuðning við einkarekna fjölmiðla fer nú fram á Alþingi en þar flutti Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, nefndarálit með breytingartillögu frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, segir frumvarp Lilju D. Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra um stuðning við einkarekna fjölmiðla, vera eitt það vitlausasta sem hann hefur orðið var við á Alþingi. Að setja einkarekna fjölmiðla „sem eru reknir af forríkum einstaklingum“ á ríkisjötuna sé fáránlegt í ljósi þess að „stærsti fíllinn“, hinn ríkisrekni fjölmiðill RÚV, ráði enn stærsta hlutanum af auglýsingamarkaðnum.

„Hefði ekki verið langbest að taka RÚV út af auglýsingamarkaði og gefa samkeppnisaðilum þar af leiðandi tækifæri til að lifa á markaðnum?“ spurði Guðmundur Ingi á þingfundi í dag. „Á sama tíma er verið að segja að séu ekki til fjármunir handa fólki sem vantar mat,“ bætti hann við.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Fréttablaðið/Vilhelm Gunnarsson

Í svari sínu við spurningu Guðmunds Inga benti Silja Dögg á að ráðherra hefði skipað starfshóp til að endurskoða starfsemi RÚV út frá mörgum þáttum. Tók hún undir með Guðmundi Inga að það væri full ástæða til að takmarka pláss RÚV á auglýsingamarkaði. Sagðist hún ekki geta tekið undir með honum að hér væri verið að „moka fé í forríkt fólk.“ Eigendur fjölmiðla væru mismunandi settir fjárhagslega og markmið frumvarpsins væri að styrkja bæði lýðræðislega umræðu á Íslandi og íslenska tungu.

„Þarna er um að ræða lagabreytingu. Aðgerð til að bregðast við áhrifum COVID faraldursins á rekstrarumhverfi þessara miðla. Maður sér svart á hvítu hversu mjög tekjur fjölmiðla hafa dregist saman á frekar stuttum tíma,“ sagði Silja Dögg.

Vilja setja lágmarks útgáfutíðni

Markmið frumvarpsins er að efla einkarekna fjölmiðla í formi styrkja sem miðist við allt að 25 prósent af stuðningshæfum rekstarakostnaði viðkomandi fjölmiðils við ritstjórnarstörf. Síðustu ár hafa rekstrarforsendur einkarekinna fjölmiðla versnað til muna, meðal annars vegna minnkandi auglýsingatekna fjölmiðla samhliða breyttri neysluhegðun fyrirtækja á markaði. Samkeppni innlendra fjölmiðla við erlendar efnisveitur hefur farið vaxandi síðustu ár vegna fjölbreyttari miðlunaraðferða.

„Mikilvægasta auðlindin í hverju lýðræðissamfélagi eru frjálsir óháðir fjölmiðlar.“

Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar áréttaði mikilvægi þess að hraða vinnu fjármála- og efnahagsráðuneytisins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins að skattleggja erlendar efnisveitur þar sem stórt hlutfall auglýsingatekna væru að streyma úr landi. Eins taldi meiri hlutinn nauðsynlegt að setja lágmarks útgáfutíðni, þ.e. að einungis prentmiðlar, sem komi út að minnsta kosti 20 sinnum á ári og netmiðlar og aðrir myndmiðlar, sem miðluðu nýjum fréttum á virkum dögum í að minnsta kosti 20 vikur á ári, eigi rétt á styrk.

Meiri hlutinn vildi einnig skerpa á orðalaginu eða breyta í frumvarpinu í samræmi við athugasemdir sem kom fram við meðferð málsins og velti upp spurningum hvort setja ætti á fót sérstakan samkeppnissjóð.

Sömuleiðis þurfi að huga að stöðu smærri fjölmiðla í þessu samhengi. Þá var bent á hversu miklu máli þjónusta og verðlagning póstþjónustu skiptir í rekstri staðbundinna miðla. Taka mætti til skoðunar hvort setja ætti á fót samkeppnissjóð til að jafna rekstrar og samkeppnisstöðu fjölmiðla. Meiri hlutinn telur æskilegt æskilegast að fyrirkomulag stuðnings kerfisins sem kveðið er á um í frumvarpi þessu, verði tekið til nánari skoðunar, m.a. með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum en verði jafnframt tekið til skoðunar samhliða þeirri endurskoðun sem á sér stað á skattlagningu erlendra efnis og streymi svitna.

„Við fæðumst inn í Þjóðkirkjuna og við fæðumst inn í RÚV. Mismunurinn er sá að við getum sagt okkur úr Þjóðkirkjunni en verðum að afplána hina vaktina ævilangt.“

Mikilvægasta auðlindin í lýðræði

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, gerði grein fyrir áliti minnihluta nefndarinnar, sem telur frumvarpið ekki þjóna yfirlýstum tilgangi sínum nógu vel, að stuðla að fjölbreytni og búa litlum og nýjum fjölmiðlum ásættanlegt rekstrarumhverfi. Lagði minni hlutinn til að frumvarpið yrði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

  • Rekstrarstuðningur skal að hámarki vera 25 prósent af stuðningshæfum rekstrarkostnaði umsækjenda.
  • Stuðningur til hvers umsækjanda skal ekki nema hærri fjárhæð en 50 milljónum króna.

„Þetta er kannski ekki ýkja miklu að bæta nema að ég vil undirstrika það og ítreka að mikilvægasta auðlindin í hverju lýðræðissamfélagi eru frjálsir fjölmiðlar, frjálsir óháðir fjölmiðlar, þar sem fagleg og gagnrýnin umfjöllun veitir valdamönnum aðhald og heldur almenningi upplýstum,“ sagði Guðmundur Andri.

„Við fæðumst inn í Þjóðkirkjuna og við fæðumst inn í RÚV,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokks.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, telur margt ábótavant við frumvarpið. Telur hann það ekki til þess fallið að varðveita frelsi óháðra fjölmiðla

„Þetta er algjört öfugmæli vegna þess að ef að fjölmiðilinn, stór eða smár, er orðinn ríkisvaldinu háður, þá mun honum reynast erfitt að bíta í höndina sem fæðir hann,“ sagði Þorsteinn.

Telur hann best að Íslendingar velji sér fjölmiðil til að greiða útvarpsgjald.

„Við fæðumst inn í tvær stofnanir Íslendingar. Við fæðumst inn í Þjóðkirkjuna og við fæðumst inn í RÚV. Mismunurinn er sá að við getum sagt okkur úr Þjóðkirkjunni en verðum að afplána hina vaktina ævilangt.“