Samkvæmt nýrri könnun Prósents eru fleiri óákveðnari en áður hvað varðar aðild að Evrópusambandinu. Stuðningurinn hefur minnkað innan Samfylkingarinnar.

42,8 prósent eru hlynnt aðild Íslands að Evrópusambandinu en 35,1 er andvígt samkvæmt nýrri könnun Prósents. Stuðningurinn hefur dalað mest hjá kjósendum Samfylkingar.

Þegar könnunin er borin saman við sambærilega könnun Prósents frá því í júní sést að þeim sem eru fylgjandi aðild að Evrópusambandinu hefur fækkað um 5,5 prósent. Þeim sem eru andvíg aðild hefur hins vegar aðeins fjölgað um 1,2 prósent. Fleiri eru hlutlausari en áður, það er hefur fjölgað úr 17,7 prósentum í 22,1.

Mestu munar um kjósendur Samfylkingar. Í júní voru þeir Evrópusinnaðastir allra því 84 prósent þeirra voru hlynnt aðild en aðeins 5 prósent á móti. Nú eru aðeins 67 prósent flokksmanna fylgjandi aðild en 12 prósent á móti. Mælist nú stuðningurinn mestur hjá Pírötum og Viðreisn, 74 og 68 prósent, en Samfylkingin er aðeins í þriðja sæti.

Fleiri eru fylgjandi aðild en á móti henni innan tveggja annarra stjórnmálaflokka, það er 51 prósent Sósíalista styður aðild og 39 prósent Vinstri grænna. Hjá Flokki fólksins styðja 26 prósent aðild, 24 prósent Framsóknarmanna, 19 prósent Sjálfstæðismanna og aðeins 11 prósent Miðflokksmanna.

„Það getur verið að fólk sem tengir sig við jafnaðarstefnuna í grunninn en hefur varnagla gagnvart Evrópusambandinu sé að koma aftur til Samfylkingarinnar og vilji styðja hana núna,“ segir Kristrún Frostadóttir, nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar. En eins og Fréttablaðið greindi frá um helgina sýnir könnun Prósents meira en 5 prósenta fylgisaukningu flokksins.

„Samfylkingin er Evrópusinnaður flokkur en stór og breiður jafnaðarmannaflokkur á fyrst og fremst að sameinast um velferðarmálin. Mér finnst jákvætt að fólk styðji þessa velferðarpólitík en að það séu ekki endilega allir sammála um þetta atriði, Evrópusambandsaðild. Samfylkingin á einmitt að vera staður þar sem við getum rökrætt um svona mál,“ segir Kristrún. „Ég vil ekki að það hvernig fólk staðsetur sig gagnvart Evrópusambandinu verði einhver fyrirstaða þegar kemur að stóra verkefninu sem Samfylkingin setur í forgang, að endurreisa velferðarkerfið og almannaþjónustuna á Íslandi.“

Á höfuðborgarsvæðinu styðja 47 prósent aðild að Evrópusambandinu en 30 prósent eru á móti. Nokkuð hefur dregið úr stuðningi við aðild á landsbyggðinni frá því í júní þegar naumur meirihluti var fylgjandi aðild. Nú eru 35 prósent fylgjandi en 44 á móti.

Ekki er mikill munur á afstöðu kynjanna þegar kemur að Evrópusambandsaðild. Karlar hafa hins vegar sterkari skoðanir á málefninu en konur. 45 prósent þeirra eru fylgjandi aðild en 36 prósent á móti. Hjá konum eru hlutföllin 40 og 34 prósent.

Ekki er heldur að sjá mikinn mun á afstöðu út frá aldri. Í öllum aldurshópum mælist stuðningurinn á bilinu 38 til 48 prósent. Andstaðan mælist hins vegar áberandi mest hjá eldri borgurum, 44 prósent, en aðeins 26 prósent hjá kjósendum undir 25 ára aldri. 30 prósent þeirra hafa ekki skoðun á hvort Ísland ætti að sækja um Evrópusambandsaðild en aðeins 15 prósent 65 ára og eldri.

Fylgi mælist milli stuðnings við Evrópusambandsaðild og tekna. 48 prósent þeirra sem hafa 800 þúsund krónur eða meira í mánaðarlaun styðja aðild en 38 prósent þeirra sem hafa undir 600 þúsund krónum í laun.

Könnunin var netkönnun framkvæmd 14. til 17. nóvember. Úrtakið var 2.600 og svarhlutfallið 51,3 prósent.