Stuðningur við ríkisstjórnina mælist 54,5 prósent í nýrri könnun MMR eða tæplega fjórum prósentustigum meira en við síðustu mælingu.

Fram kemur í könnun MMR að það dregur úr stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn en flokkurinn mælist þó með mest fylgi stjórnmálaflokka á Alþingi. Flokkurinn mælist með rúmlega 22 prósenta stuðning sem er rúmlega tveimur prósentustigum minna en við síðustu mælingu MMR í janúar síðastliðnum.

Mynd/MMR.

VG og Framsókn á siglingu

Vinstri græn bæta við sig fylgi og einnig Framsóknarflokkurinn og Viðreisn.

Fylgi Vinstri grænna jókst um tæp þrjú prósentustig og mældist 13,5 prósent og fylgi Framsóknarflokksins jókst líka eða um rúmlega tvö prósentustig og mældist nú rúmlega 11 prósent. Fylgi Viðreisnar jókst einnig eða um tæp tvö prósentustig og mælist nú 10,6 prósent.

Fylgi Samfylkingar fellur

Samfylkingin tapar stuðningi. Fylgi flokksins lækkar um tvö og hálft prósentustig frá síðustu könnun og mælist flokkurinn með rúm 13 prósent.

Könnun MMR var framkvæmd 12. - 18. febrúar 2021 og var heildarfjöldi svarenda 919 einstaklingar, 18 ára og eldri.