Guðni Th. Jóhannes­son, for­seti Ís­lands, nýtur af­gerandi stuðnings fyrir komandi for­seta­kosningar ef marka má þjóðar­púls Gallup sem RÚV birti í dag en þar kemur fram að Guðni sé með 90,4 prósent fylgi á meðan mót­fram­bjóðandi hans, Guð­mundur Frank­lín Jóns­son er með 9,6 prósent fylgi.

Sam­kvæmt könnuninni er Guð­mundur Frank­lín með mest fylgi meðal elsta aldurs­hópsins en alls sögðust fimm­tán prósent þeirra sem eru 60 ára eða eldri að þau komu til með að kjósa Guð­mund. Þá sögðust fjór­tán prósent karla ætla að kjósa Guð­mund en að­eins fimm prósent kvenna.

Þegar litið er til stjórn­mála­flokka sögðust 100 prósent kjós­enda Sam­fylkingarinnar, Pírata og Við­reisnar að þau kæmu til með að kjósa Guðna. Fimm prósent kjós­enda Fram­sóknar­flokksins, tíu prósent kjós­enda Sjálf­stæðis­flokksins, og sjö prósent kjós­enda Vinstri grænna sögðust styðja Guð­mund.

Guð­mundur er þó með mestan stuðning meðal kjós­enda Mið­flokksins en þar sögðust 55 prósent styðja Guð­mund á meðan 45 prósent sögðust styðja Guðna. Meðal kjós­enda annarra flokka, til að mynda Flokk fólksins og Sósíal­ista­flokksins, sögðust 24 prósent styðja Guð­mund.

Könnunin var fram­kvæmd dagana 29. maí til 3. júní og í úr­taki Gallup voru rúm­lega ellefu hundrað manns en svar­hlut­fall var um 55 prósent. Um er að ræða fyrsta þjóðar­púlsinn fyrir for­seta­kosningarnar í sumar.