Stuðningsmenn Duerte á Íslandi funduðu með Birgi Þórarinssyni þingmanni Miðflokksins á skrifstofum nefndarsviðs Alþingis í dag. Á þriðja tug manna voru á fundinum en Sherry Ruth Buot leiddi fundinn. Nokkrir aðilar í hópnum skiptust á því að lofsama Duterte forseta og sögðu ástandið í Filippseyjum hafa batnað síðan að Duterte komst til valda.

„Okkur finnst þetta ósanngjarnt og ekki byggt á sannleikanum,“ segir Sherry Ruth um tillögu Íslands um að framkvæmd verði óháð rannsókn á stöðu mannréttindamála á Filippseyjum sem var samþykkt á mannréttindadómstóli Sameinuðu þjóðanna.

Birgir Þórarinsson ásamt stuðningsmönnum Duterte forseta.
Fréttablaðið/Valli

Birgir Þórarinsson ræddi við hópinn en hann er sá þingmaður sem hefur lýst yfir mestum efasemdum um ályktun Íslands í Mannréttindaráðinu.

„Mér fannst sérstakt að heyra að íslensk stjórnvöld hafi ekki leitað eftir áliti frá samfélagi Filippseyinga hér á landi,“ segir Birgir í samtali við Fréttablaðið. Hann tekur undir með hópnum og segir að Duterte hafi breytt miklu í Filippseyjum.

„Þau hafa áhyggjur af þessu. Þau eiga fjölskyldur í Filippseyjum sem hafa haft samband við þau og lýst yfir óánægju með framgöngu Íslands. Eins og kom fram á fundinum þá hefur verið mikil breyting á stöðu mála í Filippseyjum eftir að þessi forseti tók við.“