„Þetta er ótrúlega skemmtilegt og eiginlega bara alveg frábært,“ segir Svava Þóra Árnadóttir nemandi í Norður-Atlantshafsbekknum. Nemendur bekkjarins stunda nám á framhaldsskólastigi og er námið hluti af þróunarverkefni sem Verzlunarskóli Íslands tekur þátt í ásamt framhaldsskólum í Danmörku, Færeyjum og á Grænlandi.

Sex Íslendingar stunda nú námið og fer fyrsta ár námsins fram í Danmörku. „Síðan förum við til Færeyja á næsta ári og verðum eina önn, svo förum við til Íslands eina önn og tökum svo lokaárið á Grænlandi,“ segir Svava.

Íslensku nemendurnir, sem eru 15 og 16 ára, fluttu til Danmerkur í haust þar sem þeir búa á stúdentagörðum og sjá um sig sjálf að mestu leyti. Svava segir góðan anda ríkja í bekknum en að erfitt hafi verið að flytja frá fjölskyldu og vinum á Íslandi.

„Við búum í litlum íbúðum við hliðina á skólanum og með nútíma- tækni er svo auðvelt að vera í sambandi við alla heima á Íslandi. Við erum öll hérna í að gera það sama og erum í sömu aðstæðum svo við styðjum hvert annað og fáum líka mjög góðan stuðning frá skólanum,“ bætir Svava við.

Þegar hún flutti til Danmerkur kunni Svava ekki mikla dönsku en nú segist hún vera orðin reiprennandi í tungumálinu. „Ég lærði auðvitað dönsku í skóla á Íslandi og stóð mig bara vel, en kunnáttan var takmörkuð. Svo þegar ég kom hingað og byrjaði að tala þá gat ég eiginlega ekki sagt neitt en verð betri og betri með hverjum deginum,“ segir hún.

Þá segist Svava afar spennt fyrir því að búa bæði í Færeyjum og á Grænlandi. „Í Færeyjum munum við búa hjá fjölskyldum og það verður örugglega aðeins öðruvísi en örugglega heilmikið ævintýri,“ segir hún.

„Svo held ég að það verði mjög áhugavert að búa á Grænlandi. Allir sem ég hef hitt segja að það sé mjög fallegt og ég held að það verði æðislegt að vera í náttúrunni og fá að upplifa allt aðra menningu,“ segir Svava.

Námið er krefjandi en krakkarnir læra hefðbundin fög eins og stærðfræði, náttúrufræði og eðlisfræði en þeir fá einnig tækifæri til að læra ýmislegt sem ekki er í boði hér, eins og Norðurskautstækni. Guðrún Inga Sívertsen þróunarstjóri Verzlunarskólans segir námið geta opnað margar dyr fyrir nemendur.

„Þau fá danskt stúdentspróf á þremur árum sem er mjög gott upp á þeirra framhaldsnám og svo læra þau ýmsar spennandi námsgreinar, það að standa á eigin fótum og auðvitað nýtt tungumál,“ segir hún.

Opið er fyrir umsóknir í námið og hvetja bæði Svava og Guðrún áhugasama til að sækja um. „Við verðum með kynningarfund næsta þriðjudag þar sem við kynnum námið og svörum öllum spurningum sem upp koma,“ segir Guðrún. Fundurinn fer fram í húsakynnum Verzlunarskóla Íslands klukkan 16.