Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur ákveðið að leggjast eindregið gegn því að Háskóli Íslands taki þátt í aldursgreiningu hælisleitenda. Tveir tannlæknar við tannlæknadeild Háskóla Íslands hafa unnið að tanngreiningum fyrir Útlendingastofnun í húsakynnum háskólans. 

Heitar umræður áttu sér stað í Stúdentaráði í gær um efnið, eftir að oddviti stúdentahreyfingunnar Röskvu lagði fram bókun vegna þátttöku háskólans í aldursgreiningu hælisleitenda.

„Háskóli Íslands er fyrst og fremst menntastofnun. Ég tel það hlutverk eigi að vera í forgrunni og skilgreina þátttöku stofnunarinnar í samfélaginu. Þátttaka Háskóla Íslands í aldursgreiningum hælisleitenda með tanngreiningu tel ég vera afspyrnu langt frá því að rúmast innan þess hlutverks“ segir í bókun sem lögð var fram af Jónu Þórey Pétursdóttur, oddvita Röskvu.

Á borði Útlendingastofnunar ekki háskólans

„Fólki finnst þetta siðferðislega ámælisvert, bæði vegna þess að okkar mati er verið að brjóta reglur og að því leyti að gæði rannsóknanna séu mjög umdeild. Fólk var í rauninni mjög samstíga um það að leggjast gegn þessu,“ segir Jóna í samtali við Fréttablaðið.

Von er á ítarlegri ályktun frá ráðinu um efnið. Að sögn Jónu lagðist enginn gegn tillögunni, heldur sneru spurningar fremur að því hvað tæki við eftir að Stúdentaráð legðist gegn þessu. „Það sem kom helst fram var að háskólinn eigi ekki að vera hluti af þessu og það er á borði Útlendingastofnunar hvernig þetta mál er tæklað. Ég tel þetta ekki samræmast að neinum hætti þeirri þekkingu og þjónustu sem háskólinn á að veita samfélaginu.“

Niðurstaða fundarins var því að ráðið leggst eindregið gegn því að þjónustusamningur milli HÍ og Útlendingastofnunar verði gerður. 

Langt ferli að baki

Elísabet Brynjarsdóttir, formaður Stúdentaráðs, staðfestir í samtali við Fréttablaðið að samþykkt hefði verið einróma á fundinum í gær að Stúdentaráð legðist gegn þáttöku háskólans í slíkum aldursgreiningum. Segir hún ferlið hafa verið langt en ráðið fékk í sumar kynningu frá Önnu Kristínu Jóhannesdóttur, meistaranema í hjúkrunarfræði, um þáttöku háskólans í slíkum aldursgreiningum. 

Að þeirri kynningu lokinni fór Elísabet á fund Jóns Atla Benediktssonar rektors þar sem hún óskaði eftir skriflegum svörum varðandi þátt háskólans í tanngreiningum hælisleitenda. Svörin voru kynnt á fundinum í gær og líkt og fyrr segir var kosið einróma um að leggjast gegn slíkri greiningu í húsakynnum háskólans. Von er á ítarlegri ályktun frá Stúdentaráði um málið.